Körfubolti

Litháískur reynslubolti til liðs við Grindavík á nýjan leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valdas Vasylius er genginn til liðs við Grindavík á nýjan leik.
Valdas Vasylius er genginn til liðs við Grindavík á nýjan leik. Vísir/Getty

Grindavík hefur samið við litháíska reynsluboltann Valdas Vasylius um að leika með liðinu á komandi leiktíð í Subway-deild karla í körfubolta.

Vasylius er nafn sem Grindvíkingar ættu að kannast við en hann lék með liðinu tímabilið 2019-2020. Þá skilaði hann að meðaltali 15 stigum, sjö fráköstum og tveim stoðsendingum í leik. Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum Grindvíkinga.

Vasylius er 38 ára gamall miðherji sem lék seinast með BC Šilutė í næst efstu deild í heimalandinu. Hann hefur einnig spilað sem atvinnumaður í Grikklandi, Póllandi, Rússlandi og Úkraínu. Vasylius lék auk þess með Old Dominion háskólanum í bandaríska háskólakörfuboltanum á sínum yngri árum.

„Valdas stóð sig mjög vel hjá Grindavík fyrir nokkrum árum og við höfum fylgst vel með honum undanfarin ár. Hann mun hjálpa okkur að auka breidd liðsins inn í teignum. Valdas er einnig frábær skytta þannig að hann mun nýtast okkar liði afar vel í vetur,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, í tilkynningu liðsins.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×