Úr því að Karl, sonur Elísabetar, varð konungur við andlát móður sinnar þá breytist textinn við þjóðsöng Breta þannig að „God save the King“ tekur við af „God save the Queen“. Þannig mun til að mynda enska karlalandsliðið í fótbolta kyrja þessar línur á HM í Katar í nóvember og desember:
God save our gracious King!
Long live our noble King!
God save the King!
Send him victorious,
Happy and glorious,
Long to reign over us,
God save the King.
Sungið hefur verið til heiðurs drottningarinnar í stað konungs í þjóðsöngnum síðustu sjötíu ár, eða frá því að Elísabet tók við af Georgi föður sínum, svo að breskt íþróttafólk í dag þekkir ekki annað en að syngja til drottningarinnar.
Andlát Elísabetar hafði einnig meðal annars þau áhrif að öllum leikjum í enska fótboltanum sem fara áttu fram um liðna helgi var frestað. Ekki hefur annað komið fram en að þráðurinn verði tekinn upp í ensku úrvalsdeildinni að nýju næsta föstudag.
Þjóðsöngur Breta var í fyrsta sinn eftir andlát Elísabetar drottningar sunginn til konungs á íþróttaleik þegar Englendingar kepptu í krikketi um helgina.