Innlent

Staðan í Evrópu helsta ógnin við íslenskan efnahag

Heimir Már Pétursson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir öfugmæli að aðgerðir bankans gegn verðbólgu komi verst niður á þeim sem minna hafi. Aðgerðirnar væru til að vernda stöðu heimilanna.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir öfugmæli að aðgerðir bankans gegn verðbólgu komi verst niður á þeim sem minna hafi. Aðgerðirnar væru til að vernda stöðu heimilanna. Stöð 2/Egill

Íslensku efnahagslífi stafar helst ógn af mikilli óvissu í alþjóðamálum. Seðlabankastjóri telur að vaxtahækkanir og aðrar aðgerðir Seðlabankans séu farnar að skila árangri. Horft verði til þess við ákvörðun vaxta í næstu viku.

Fjármálastöðugleikanefnd kynnti skýrslu sína um stöðu efnahagsmála í dag. Þar kemur fram að staðan hér á landi sé að mörgu leyti góð. Atvinnuleysi lítið, horfur á ágætum hagvexti, staða viðskiptabankanna traust, gott verð fyrir útfluttar afurðir og ferðaþjónustan hafi vaxið umfram vonir á þessu ári.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að alþjóðlegar efnahagshorfur hafi versnað þar sem verðbólga í helstu viðskiptalöndum hafi ekki verið meiri í áratugi.

„Áhætta tengd fjármálastöðugleika hér á landi hefur því vaxið vegna versnandi ytri aðstæðna og líkur eru á að sú þróun haldi áfram,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Haukur Benediktsson framkvæmdastjóri stöðugleika hjá Seðlabankanum, Gunnar Jakobsson staðgengill formanns fjármálastöðugleikanefndar og Ásgeir Jónsson formaður fjármálastöðugeikanefndar kynntu skýrslu nefndarinnar í morgun.Stöð 2/Egill

„Það getur leitt til þess að okkar útflutningsvörur lækki í verði. Það gangi ekki jafn vel að selja þær,“ segir Ásgeir. Þá geti samdráttur í helstu viðskiptalöndum leitt til þess að fólk þar ferðist minna. Hins vegar hafi verið byggðar upp mjög sterkar varnir hér á landi á undanförnum árum gagnvart efnahagslegum áföllum.

„Íslenska þjóðin er ekki lengur skuldsett í útlöndum eins og hún var. Við erum nú orðin þjóð sem á nettó eignir í útlöndum. Það er mjög jákvætt. En það er alveg sama, þessi áhrif koma fram,“ segir seðlabankastjóri.

Verðbólgan virðist áundanhaldi. Mælist nú 9,3 prósent en var mest 9,9 prósent í júlí. Ásgeir segir vaxtahækkanir og aðrar aðgerðir bankans eins og hertar kröfur um eiginfé við íbúðarkaup vera að skila árangri. Þetta verði meðal annars haft til hliðsjónar á næsta vaxtaákvörðunardegi eftir viku.

„Þetta er einn af þeim þáttum sem peningastefnunefnd mun skoða. Þetta er mjög jákvæð þróun hvað varðar verðbólgu. Mér sýnist hún hafa náð hámarki,“ segir Ásgeir.

Með áframhaldandi lækkun verðbólgu og auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði komi til greina að rýmka aftur eiginfjárkröfu vegna fyrstu kaupa en hinn 15. júní var hámarks veðsetning við fyrstu kaup lækkuð úr 90 prósent í 85 prósent.

Áhyggjur af þróun efnahagsmála í Bretlandi

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvatti bresk stjórnvöld í gær til að eldurskoða áform sín um stórfelldar skattalækkanir sem aðallega nýtast hinum efnameiri. Í dag greip breski seðlabankinn síðan til þess óvenjulega úrræðis að kaupa tímabundið mikið magn af langtíma skuldabréfum breska ríkisins eftir að ljóst var að veruleg hætta var á að margir helstu lífeyrissjóðir landsins færu á hausinn vegna verðfalls á bréfunum.

Mohamed El-Erian aðalhagfræðingur Allianz segir AGS greinilega hafa áhyggjur af alþjóðlegum afleiðingum þess að breska stjórninn skjóti sig í fótinn með aðgerðum sínum.

„Þannig að þetta er ekki einkamál Breta. Þetta eru Bretar að kasta eldsneyti á alþjóðlega þróun sem er að valda miklu tjóni á alþjóðlegum mörkuðum og efnahag," segir El-Erian.

Breski Ásgeir hefur trú á að seðlabankar í Evrópu séu að ná árangri í baráttunni við verðbólguna.

„Við sjáum til dæmis að olíuverð er byrjað að lækka. Þannig að ég tel að aðgerðirnar úti séu að skila árangri en þær geta mögulega keyrt þessi lönd niður í kreppu,“ segir seðlabankastjóri. Það hefði bein áhrif hér á landi.

Margir efnahagssérfræðingar segja skattalækkanir sem ríkisstjórnar Liz Truss kynnti á föstudag auka á efnahagsvandann. Nú hafa stórir veitendur húsnæðislána hætt að lána tímabundið eða þrengt lánamöguleika vegna væntinga um miklar vaxtahækkanir hjá Englandsbanka.AP/Jessica Taylor

„Þetta eru lönd sem eru búin að vera með neikvæða vexti eða lága og neikvæða vexti í áratug. Það að ætla síðan að fara snögglega upp í jákvæða vexti er bara erfitt. Það veldur álagi á fjármagnskerfi þar ytra sem á kannski eftir að sjá fram hvernig verður. Þá hefur það þessi áhrif en ég held að við séum að sjá minni innflutta verðbólgu á komandi mánuðum.“

Nýlegar efnahagsaðgerðir breskra stjórnvalda með miklum skattalækkunum sem kalla á aukna og óhagstæðari lántöku en áður hafa valdið usla í bresku efnahagslífi.

Mikill samdráttur í Bretlandi, hefur hann bein áhrif hér?

„Já, hann hefur það. Bretland er það stakt land sem er helsta viðskiptaland okkar í mörgu tilliti. Þannig að við höfum auðvitað þungar áhyggjur af breskum efnahag. Það hefur áhrif hér,“ segir Ásgeir Jónsson.


Tengdar fréttir

Öfugmæli að aðgerðir Seðlabankans komi heimilunum illa

Seðlabankastjóri segir að þeir sem gagnrýnt hafi aðgerðir Seðlabankans til að ná niður verðbólgu fari með öfugmælavísur. Verðbólga sé mesti óvinur þeirra verst settu í þjóðfélaginu og nú bendi margt til að aðgerðir til á ná henni niður séu farnar að virka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×