Macron sagði í viðtali við France 2 á miðvikudag að það væri stefna Frakka að grípa aðeins til kjarnorkuvopna ef beinir hagsmunir Frakklands væru í húfi. Það ætti ekki við í því tilviki ef Rússar gerðu kjarnorkuárás á Úkraínu.
Aðrir ráðamenn aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hafa neitað að svara því beint hvernig bandalagið myndi bregðast við kjarnorkuvopnanotkun Rússa og framkvæmdastjórinn Jens Stoltenberg sagði í gær að engar upplýsingar yrðu veittar þar að lútandi.
Það myndi hins vegar hafa grafalvarlega afleiðingar í för með sér ef Rússar beittu kjarnorkuvopnum.
Josep Borrell, æðsti ráðamaður Evrópusambandsins á sviði utanríkismála, var afdráttarlausari í gær.
Hann sagði að ef Vladimir Pútín Rússlandsforseti gripi til þess ráðs að nota kjarnorkuvopn í Úkraínu, yrðu hersveitir Rússa þurrkaðar út.
Ummæli Borrell ríma við þá sviðsmynd sem flestir sérfræðingar virðast sjá fyrir; að kjarnorkuárás yrði ekki svarað með kjarnavopnum heldur yrðu hefðbundin vopn notuð til að gera út um sveitir Rússa í Úkraínu og flota þeirra á Svartahafi.