Það er mikið um það á aðventunni að tónlistarfólk og kórar heimsæki hjúkrunar- og dvalarheimili landsins til að gleðja þá, sem þar búa með fallegri jólatónlist. Á Kirkjuhvoli hefur starfsfólk tekið þetta hlutverk að sér, það kemur fram með hljóðfærin sín eða röddina sína og gleður heimilisfólk með fallegum tónlistarflutningi. Á eftir er síðan boðið upp á jólakaffi að hætti heimilisins.
Það er líka svo skemmtilegt við Kirkjuhvol að þar vinna heilu fjölskyldurnar saman, mæðgur og mæðgin til dæmis og svo fjölskylda hjúkrunarforstjórans, mamma hennar, bróðir hennar, amma hennar og frænka hennar.

„Fólkið, sem vinnur hér það sér bara um að syngja og um atriðin. Það eru miklir hæfileikar hér,“ segir Sjöfn Dagmar Guðjónsdóttir, hjúkrunarforstjóri.
„Ég held að allir þessir hæfileikar komi bara með kalda vatninu hérna í Hvolshreppnum,“ segir Særún Steinunn Bragadóttir, mamma Sjafnar og skellihlær.
