„Við fengum sem nemur tæpum átta hundruð milljónum minna en við óskuðum eftir til reksturs Gæslunnar á þessu ári á fjárlögum. Afleiðingarnar eru þá þessar þegar farið var að setjast yfir þetta með Landhelgisgæslunni, þá komu þeir með ýmsar tillögur um það hvernig við gætum brugðist við þessu og eftir að hafa legið yfir þeim þá var niðurstaðan sú að þessi ráðstöfun væri sársaukaminnst, þó hún sé ekki sársaukalaus,“ sagði Jón í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni á fimmta tímanum í dag.
Ánægður með kröftug viðbrögð
Hann segir hugmyndina um að selja flugvélina TF-SIF komna frá Landhelgisgæslunni sjálfri.
„Landhelgisgæslan fór yfir það hvar hún gæti gripið til aðhaldsaðgerða til þess að við stæðumst fjárlög. Við höfum það lögbundna hlutverk að fara að fjárlögum og þetta var ein af þeim tillögum sem að þeir teiknuðu upp. Eftir að hafa setið með þeim yfir þessum tillögum var sameiginleg niðurstaða að þetta væri sársaukaminnst,“ segir Jón.
Hann fagnar sterkum viðbrögðum við tilkynningunni.
„Eftir að við tilkynnum það að farið verði í þessa vegferð hefur það vakið upp ansi kröftugar athugasemdir og ég er auðvitað bara mjög ánægður með að menn hugsi til Gæslunnar og horfi til þess. Þetta nær til þingmanna og ráðherra og það er hægt að bregðast við þessu með því að auka fjármagnið.“
Líði senn að endurnýjun búnaðar
Spurður hvort hann sé vongóður um að úr málinu rætist segist hann ver það.
„Það er það sem ég á eftir að ræða á vettvangi ríkisstjórnar og miðað við þær yfirlýsingar sem ég hef heyrt er ég vongóður um það. Það verður enginn glaðari en ég ef við getum fallið frá þessu þó auðvitað áfram verður að leita allra leiða til að reka stofnanir ríkisins með sem hagkvæmustum hætti,“ segir Jón.
Hann segir þurfa fjármagn upp á um hálfan milljarð á þessu ári til að geta látið enda ná saman.
„Það er líka annað sem kemur að þessari flugvél. Framundan er nokkuð hundruð milljóna króna fjárfestingar í endurnýjun á tækjabúnaði á þessari vél. Tækjabúnaðurinn er kominn til ára sinna og tækninni hefur fleygt fram. Sumt af þessu er úr sér gengið og þar stöndum við frammi fyrir miklum áskorunum,“ segir Jón.
Fjárlög hafi ráðið ferð
Skoðað verði hvort skynsamlegra sé að reka ódýrari flugvél í framtíðinni.
„Þessar vélar, eins og sú sem Landhelgisgæslan er með, þykja mjög dýrar í rekstri og eru það. Það mun vera skoðað og við höfum hafið samtal við til að mynda ISAVIA um mögulega samnýtingu á vél sem yrði fengin til þeirra verkefna sem þarf að sinna á þeim bæ líka. Manni finnst blasa við að það gæti verið hagræðing fyrir báða aðila að sameinast í slíkum rekstri,“ segir Jón.
„Enginn verður glaðari en ég að þurfa ekki að standa fyrir svona leiðindarákvörðunum. Það er mér þvert um geð og ekki síst þegar kemur að þessari stofnun sem ég hef persónulega átt áralangt samstarf við. Okkur ber að fara að fjárlögum og það er það sem stóð upp úr.“