Skjálftinn átti upptök sín skammt frá landamærum Tyrklands og Sýrlands og var 7,8 á stærð. Óttast er að tala látinna komi til með að hækka eftir því sem frekari upplýsingar berast.
Erfitt hefur reynst að ná sambandi við þau héruð sem verst urðu úti í Sýrlandi, þar sem þau eru á valdi uppreisnarmanna eftir áralangt borgarastríð.
Mörg þúsund eru slasaðir og hundruð manns eru sögð föst undir rústum bygginga. Að sögn talsmanns tyrkneskra yfirvalda eru að minnsta kosti sex þúsund særðir eftir skjálftann.
Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta, er búsettur í suðausturhluta Tyrklands. Hann var staddur í Istanbul þar sem hann átti að spila fótboltaleik í dag með liði sínu Adana Demispor. Kærasta Birkis, Sophie Gordon, var á heimili þeirra í Adana þegar jarðskjálftinn reið yfir en borgin er ein af þeim sem verst fóru út úr skjálftanum.
„Það er svolítið panik i gangi hérna. Ég var nú bara sofandi í nótt klukkan fjögur þegar kærasta mín hringdi og sagði mér frá þvi að það væri svakalegt ástand í Adana. Hún hreinlega gat ekki staðið í lappirnar, það var svo mikill skjálfti. Þetta er búið að vera erfiður tími núna í morgun.“

Freista þess að komast til Adana
Birkir og hinir leikmenn liðsins urðu sjálfir ekki varir við skjálftann. Þeir eru núna á leið upp á flugvöll og ætla að freista þess að komast aftur til Adana. Hann viti ekki til þess að neinn úr liðinu hafi misst einhvern nákominn.
„Nei, held að allir hafi sloppið þannig séð, það er bara meiri hræðsla innan hópsins, það eru öllum sagt að fara út úr húsum og byggingum þannig að fólk er bara úti á götum og veit hreinlega ekki hvað næsta skref er,“ sagði Birkir Bjarnason.
Ekki fengið tilkynningar
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir ráðuneytið ekki hafa fengið tilkynningar um Íslendinga á þeim svæðum sem verst urðu úti. Hann segir íslenska sérfræðinga á sviði samhæfingar við leit og rústabjörgun á viðbragðslista Sameinuðu þjóðanna.
„Þeir eru í startholunum að fara á vettvang ef þess gerist þörf og íslenskt stjórnvöld myndu þá standa straum af kostnaði við það. Við höfum líka átt í samtali við Rauða krossinn varðandi að sendifulltrúar á vegum hans fari á vettvang sé þess óskað,“ segir Sveinn H. Guðmarsson. Hann biðlar til Íslendinga í Tyrklandi að láta aðstandendur vita af sér.
Tyrkland er eitt virkasta jarðskjálftasvæði heims. Sautján þúsund manns létust árið 1999 þegar skjálfti af stærðinni 7,4 reið yfir þar í landi.