Mikill órói hefur verið á fjármálamörkuðum víða um heim í vikunni eftir að greint var frá falli bandaríska bankans Silicon Valley Bank og síðar svissneska bankans Credit Suisse. Hlutabréf í Credit Suisse hafa hríðfallið, þrátt fyrir að svissneski seðlabankinn hafi veitt þeim neyðarlán upp á 50 milljarða svissneska franka, eða tæplega 7.600 milljarða króna, á fimmtudag.
UBS and regulators rush to seal Credit Suisse takeover deal https://t.co/8fxHQfrXHW
— Financial Times (@FinancialTimes) March 18, 2023
Viðskiptamiðillinn Financial Times greindi frá því seint í gærkvöldi frá því að stjórnir svissnesku bankanna UBS og Credit Suisse muni funda um helgina þar sem möguleg yfirtaka fyrrnefnda bankans á hinum síðarnefnda, annað hvort að hluta eða í heild, yrði rædd.
Seðlabankinn og fjármálaeftirlitið þar í landi standa að viðræðunum sem ætlað er að endurvekja traust á bankakerfi landsins og er búist við að niðurstaða liggi fyrir á mánudag. Um sé að ræða ákjósanlegasta kostinn en aðrir valmöguleikar séu einnig til skoðunar.
Vilja flýta fyrir samrunanum
Miðillinn greindi þá frá því fyrir skömmu, og hafði það eftir einstaklingum sem þekkja til málsins, að yfirvöld í Sviss séu að undirbúa neyðarráðstafanir til að flýta fyrir samrunanum. Ríkisstjórn Sviss kom saman á neyðarfundi í kvöld vegna málsins og fékk þar kynningu meðal annars frá seðlabankanum, fjármálaeftirlitinu og fulltrúum bankageirans, að því er segir í fréttinni.
Undir venjulegum kringumstæðum hefði UBS gefið hluthöfum sex vikur fyrir samráð um samrunann og síðar lagt málið í atvkæðagreiðslu en ráðstafanirnar eru sagðar miða að því að sleppa því alfarið. Enn sé þó unnið að útfærslunni og smáatriðum því tengdu en bankinn er sagður fara fram á ýmsar tryggingar og undanþágur vegna sölunnar.
UBS mulls takeover of Credit Suisse with possible Swiss government guarantees https://t.co/Sp3EbpVJo3 pic.twitter.com/MhHo1O7YLI
— Reuters (@Reuters) March 18, 2023
Samkvæmt frétt Reuters fara þau fram á að ríkisstjórnin veiti þeim um sex milljarða dali til að tryggja þau vegna atriða tengdum yfirtökunni en talið er að um tíu þúsund manns gætu misst vinnuna með samrunanum. Sú upphæð er þó ekki staðfest og gæti tekið breytingum þar sem ýmsir þættir eru sagðir til skoðunar. Þá er
Bandaríski fjárfestingarbankinn BlackRock hafði áður verið orðaður við málið, ásamt öðrum, en forsvarsmenn þvertóku fyrir það í dag að þeir hyggðu á yfirtöku.
Í frétt Financial Times sem birt var eftir yfirlýsingu BlackRock er þó vísað til þess að fjölmargir heimildarmenn hafi staðfest að bankinn hafi verið að skoða valmöguleika í því samhengi og meira að segja teiknað upp áætlun.
Bandaríkjaþing skoðar aðgerðir
Mikill titringur hefur sömuleiðis verið á mörkuðum í Bandaríkjunum en nokkrir af stærstu bönkunum þar í landi komust á fimmtudag að samkomulagi um að verja þrjátíu milljörðum dala, eða rúmlega 4.200 milljarða króna, til að forða bandaríska bankanum First Republic frá falli.
Bandaríkjaþing er einnig með málið til skoðunar en vitnaleyðslur fyrir þingnefnd hafa verið boðaðar í lok mánaðar til að ná fram svörum um stöðu bandaríska bankakerfisins og hafa breytingar á regluverki verið ræddar.
Fjármálakerfið á Íslandi sterkt en áhrifin gætu verið einhver
Hvort áhrifin verði einhver á Íslandi segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að þekktir veikleikar hafi verið til staðar hjá fyrirtækjunum erlendis.
„Hér heima erum við ekki með sambærilegar aðstæður, við metum það þannig að styrkur íslenska fjármálakerfisins og viðnámsþrótturinn sé bara mjög mikill. En þetta þýðir ekki að við séum algjörlega einangruð, það getur auðvitað smitast til Íslands,“ segir Bjarni.
Fylgjast þurfi með því hvort þróunin muni leiða til þess að það dragi á endanum úr viðskiptakjörum Íslendinga. Ákveðin hætta sé á því að fjármagnskostnaður aukist sem geti bitnað á þeim sem treysta á erlenda fjármögnun, og jafnvel eftir atvikum ríkissjóði.
„Það er ekki alveg gott að spá nákvæmlega fyrir um það hvernig þessir atburðir sem að eru enn þá dálítið að rekja sig, dag frá degi, munu spilast út en heilt yfir eru þetta ekkert neitt sérstaklega góðar fréttir, þó ég hafi ekki mjög miklar áhyggjur af því,“ segir Bjarni.
„Það er margt sem að við getum gert sem að við höfum stjórn á hér heima fyrir, sem við eigum að beina sjónum okkar að, umfram það sem er að gerast þarna úti,“ segir hann enn fremur og vísar til aðgerða sem miða að því að draga úr verðbólgu hér á landi.