Fyrr í dag var greint frá því að UBS hafi ætlað að kaupa Credit Suisse fyrir allt að einn milljarð Bandaríkjadala. Samkvæmt heimildum Financial Times hefur kaupverðið þó hækkað í tvo milljarða. Þá segir miðillinn að samningurinn eigi að vera undirritaður í kvöld.
Þrátt fyrir að umrætt kaupverð hafi hækkað þá er það ennþá einungis brot af markaðsvirði Credit Suisse. Verð hlutabréfa í bankanum var 1,86 Frankar á föstudag en ljóst er að UBS fær hvert hlutabréf á um 0,5 franka.

Vincent Kaufmann, forstjóri Ethos Foundation sem fer fyrir lífeyrissjóðum sem eiga í kringum þrjú til fimm prósent af Credit Suisse og UBS, segir í samtali við Financial Times að hann eigi ekki von á því að fólk verði ánægt með kaupin.
„Ég get ekki trúað því að meðlimir okkar og hluthafar í UBS verði ánægðir með þetta. Ég hef aldrei séð svona ráðstafanir gerðar áður, það sýnir hversu slæm staðan er,“ er haft eftir Kaufmann.