Tvær konur úr Rangárþingi, þær Hulda Bynjólfsdóttir á Tyrfingsstöðum, eigandi ullarvinnslunnar Uppspuna, og Maja Siska í Skinnhúfu, fluttu fyrirlestur um sauðkindina og íslensku ullina fyrir fullum sal af fólki og sýndu um leið dæmi um handverkið.

„Þær voru alveg frábærar, mjög flottar, öll sæti setin,“ segir Margrét Jónsdóttir á Syðra-Velli í Flóa, sem hlýddi á, en hún er ein þeirra kvenna sem standa að ullarversluninni að Þingborg austan Selfoss.
„Áhugi á ull og garni úr hreinum hráefnum, ómenguðum af gerviefnum, er gríðarlegur út um allan heim og Ísland og allt sem tengist Íslandi er vinsælt. Við erum með hreina íslenska ull, ekkert gervidrasl, þú afsakar orðbragðið,“ segir Hulda Brynjólfsdóttir.

Systurnar Margrét og Anna Dóra Jónsdætur, sem báðar tengjast Þingborg, héldu námskeið um hvernig Íslendingar prjóna lopapeysur.
„Það er gaman að segja frá því að námskeiðið þeirra var það fyrsta sem seldist upp þegar opnað var fyrir skráningar á námskeiðin,“ segir Hulda.

Tuttugu pláss voru í boði á námskeiðinu og sóttu það konur af fimm þjóðernum, flestar frá Sviss en einnig voru þar þýskar konur, tvær sænskar, ein dönsk og ein frá Ungverjalandi.
„Þetta var námskeið í að prjóna peysu úr íslenskri ull. Það er gert aðeins öðruvísi, en flestir aðrir eru vanir, að prjóna íslenska lopapeysu. Að sumu leyti einfaldara, okkur Íslendingum finnst það þægilegra og koma betur út þegar peysan er tilbúin,“ segir Hulda.

„Það er eins og allt frá Íslandi veki athygli. Ég held að íslenska ullin sé mjög hátt skrifuð. Hún er svo dásamleg,“ segir Margrét.
Hulda segir að íslensku gestirnir á garnhátíðinni í Sviss hafi vakið mikla athygli.
„Það var sama hvar við komum, þegar við sögðum; „við erum Íslendingar,“ þá opnuðust allar dyr, fólk brosti út að eyrum og bauð okkur velkomin,“ segir Hulda.

Toppnum segir hún þó hafa verið náð þegar þær sáu helsta dagblað landsins einn morguninn á hótelinu sem þær dvöldu á.
„Þar var opnugrein um garnhátíðina og þess getið að tuttugu konur hefðu komið alla leið frá Íslandi til að vera með,“ segir Hulda.
Dæmi um hvað þetta þýðir fyrir sauðfjárbændur má sjá í þessari frétt Stöðvar 2 af Ströndum fyrir tveimur árum: