Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis og mannvirkjastofnunar sem birt var í morgun.
Þar segir að af þessum hreinu nýju íbúðalánum hafi ný óverðtryggð íbúðalán verið neikvæð um 350 milljónir króna en þau hafi ekki verið neikvæð síðan í janúar 2015, vegna leiðréttingarinnar svokölluðu.
Fólk að færa sig úr óverðtryggðum lánum í verðtryggð
Gögnin sýna að færst hafi í vöxt að fólk færi sig úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð og þá segir að áfram einkennist fasteignamarkaðurinn af nokkurri ró samanborið við síðustu ár. Þrátt fyrir að vextir hafi haldið áfram að hækka sé ekki að sjá að mati skýrsluhöfundar að íbúðamarkaðurinn sé að kólna meira en hann hafði þegar gert.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,5 prósent á milli mánaða í mars, viðskiptum hefur fjölgað en aðrir mælikvarðar eru nokkuð stöðugir.
Í skýrslunni segir að í febrúar síðastliðnum hafi 611 íbúðir selst á landinu öllu, samanborið við 413 í janúar. Aukningin hafi þó aðeins numið fimmtíu íbúðum á milli mánaða ef litið er til árstíðabundinna talna.

Ungir kaupendur ekki færri síðan 2014
Þegar horft er til aldurs kaupenda íbúða kemur fram að ungir kaupendur, 30 ára og yngri, hafi verið 26,5 prósent af heildarfjölda kaupenda í fasteignaviðskiptum á höfuðborgarsvæðinu á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 29,2 prósent á fjórða ársfjórðungi 2022.
„Á tímum COVID19 var hlutur ungra kaupenda óvenju hár og náði hann hámarki á þriðja ársfjórðungi 2021 í 35,4%. Á árunum 2009-2018 var hlutfall ungra kaupenda hins vegar yfirleitt lægra en það er nú.
Hlutfall ungra kaupenda virðist hreyfast í takt við umsvif á fasteignamarkaði þannig að ungir kaupendur eru hlutfallslega fleiri þegar fleiri viðskipti eiga sér stað. Fjöldi ungra fasteignakaupenda sveiflast því talsvert meira en hlutdeild þeirra. Þannig voru tæplega 513 ungir fasteignakaupendur á fyrsta ársfjórðungi þessa árs á höfuðborgarsvæðinu en ríflega 1.300 á þriðja ársfjórðungi árið 2021,“ segir í skýrslunni.