„Því miður er kominn tími á að við kveðjum. Öllum útibúum okkar hefur nú verið lokað,“ segir í tilkynningu Kellie Taylor, svæðisyfirmanns Domino's í Danmörku, á vef fyrirtækisins.
Domino's í Danmörku var rekið af sérleyfishafa keðjunnar í Ástralíu, Australia's Domino's Pizza Enterprises. Hlutabréf félagsins lækkuðu um 11,9 prósent í dag, mest allra félaga í áströlsku kauphöllinni.
Félagið tók við rekstri veitingastaðanna í Danmörku eftir að fyrri sérleyfishafar fóru á hausinn árið 2019.
Keðjan hafði átt í vök að verjast um nokkurt skeið eftir afhjúpanir sjónvarpsþáttarins Operation X, sem sýndur var í september árið 2019 á TV2. Þar kom meðal annars fram að Domino's hafi notast við gamalt hráefni og falsaðar dagsetningar á matvælum. Þá var einnig minnst á rottugang og óþrifnað. Sjónvarpsþátturinn notaðist við flugumann sem sankaði að sér heimildum um misferli Domino's mánuðum saman.
Í tilkynningunni segir að með innreið sinni á Danmerkurmarkað hafi fyrirtækið viljað færa Dönum ferskar pitsur í hæsta gæðaflokki og á viðráðanlegu verði. Þannig hafi fyrirtækinu tekist að endurheimta traust viðskiptavina á Domino's.
„Þrátt fyrir að með samstilltu átaki starfsfólks hafi okkur tekist að ná viðskiptavinum aftur á okkar band og skapa hóp dyggra fastakúnna, var það ekki nóg til þess að tryggja sjálfbæran rekstur til frambúðar,“ segir í tilkynningu.