Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að skrifað var undir samninginn í morgun í kjölfar viljayfirlýsingar fyrir þremur mánuðum. Hann hljóðar upp á kaup á þrettán A321XLR flugvélum og kauprétt á tólf vélum sömu tegundar til viðbótar. Afhending hefst árið 2029 en kaupverð er trúnaðarmál.
„Þetta er ein stærsta ákvörðun sem Icelandair hefur tekið í 86 ára sögu. Þannig að þetta eru mjög stór tímamót og ánægjuleg,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, og kveðst alveg geta trúað því að þetta sé einhver stærsti viðskiptasamningur í sögu Íslendinga.
„Það hefur lengi verið markmið okkar að byrja að vinna með Icelandair. Dagurinn í dag er því sögulegur dagur fyrir Airbus,“ segir Wouter Van Wersch, aðstoðarforstjóri Airbus.
„Við erum mjög stoltir yfir að þeir skyldu velja okkur og fá 321-XLR þotur, sem eru frábærar flugvélar og henta mjög vel fyrir Icelandair,“ segir Van Wersch.
Icelandair hyggst ekki bíða í sex ár eftir Airbus-þotum heldur hefur jafnframt gert leigusamning um fjórar nýjar A321LR, sem verða afhentar fyrir lok næsta árs, en þeim er ætlað að leysa af 757-þoturnar.

„Þetta eru miklu hagkvæmari vélar hvað varðar eldsneytiseyðslu og rekstur og búa þar af leiðandi til tækifæri á nýjum áfangastöðum og aukinni tíðni á núverandi áfangastaði. Þannig að þróunarmöguleikar leiðakerfisins munu aukast strax og við fáum þessar vélar inn til okkar,“ segir Bogi en reiknað sé með að árið 2026 verði síðasta ár 757-vélanna í farþegaflugi félagsins.
XLR vélarnar hafa allt að ellefu klukkustunda flugþol og segja Airbus-menn þær koma með nýju farþegarými af sömu gæðum og í breiðþotu.

„Farþegunum mun líða mjög vel og þessar flugvélar geta farið í lengri ferðir. Allt þetta með mun hagkvæmari eldsneytisnotkun á hvert sæti því þær eyða 30% minna eldsneyti samanborið við eldri gerðir flugvéla sem þær leysa af hólmi,“ segir Wouter Van Wersch.
„Svo hvað sjálfbærni varðar, þægindi farþega og hagkvæmni eru þetta fullkomnar flugvélar fyrir Icelandair,“ segir aðstoðarforstjóri Airbus.
Forstjóri Icelandair bætir við að XLR-vélin geti gert mun meira en 757-vélin.
„Farið niður eftir vesturströnd Bandaríkjanna og lengra í austur. Og í rauninni lengra í allar áttir. Þannig að þetta býr til veruleg tækifæri fyrir þróun á okkar leiðakerfi á næstu árum,“ segir Bogi Nils.