Enski boltinn

Er þetta framtíðin í fótboltasjónvarpi? Sjáðu mark Jesus með „augum“ dómarans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabriel Jesus ræðir við dómara leiksins sem aftur náði þessum frábærum myndum af marki hans.
Gabriel Jesus ræðir við dómara leiksins sem aftur náði þessum frábærum myndum af marki hans. Getty/David Price

Gabriel Jesus var meðal markaskorara Arsenal í 5-0 sigri á stjörnuliði MLS i fyrsta leik Arsenal í æfingaferðinni til Bandaríkjanna og fyrsta leik Declan Rice með liðinu.

Mark Gabriels Jesus var einkar laglegt en hann var fljótur að hugsa og lyfti boltanum á skemmtilegan hátt yfir markvörð MLS-liðsins og í markið.

Markið leit vel út í hinum hefðbundnu myndavélum á fótboltaleikjum en það var líka boðið upp á nýstárlegt sjónarhorn í þessum leik.

Dómari leiksins var nefnilega með myndavél á sér og þar var hægt að sjá það sem hann sá.

Dómarinn var mjög vel staddur í marki Brasilíumannsins og hér fyrir neðan má sjá mark Jesus „með augum“ dómarans.

Svo gæti farið að slíkar myndavélar séu framtíðin í fótboltasjónvarpi. Bandaríkjamenn eru þekktir fyrir að prófa nýja hluti og ný sjónarhorn í útsendingum frá stærstu atvinnumannaíþróttum sínum sem síðar verður stöðluð útfærsla hjá sjónvarpsstöðvum út um allan heim.

Nú þegar Lionel Messi er kominn í MLS-deildina og áhugi eykst mikið á henni má kannski búast við að Bandaríkjamenn kynni heiminum fyrir nýjum leiðum til að taka upp fótboltaleiki til að auka áhuga og aðgengi að vinsælustu íþrótt heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×