„Þetta liggur hérna yfir. Ég sé ekki til fjalla nema rétt upp fyrir varnargarðinn á Flateyri,“ segir þingkonan Halla Signý Kristjánsdóttir, sem stödd er í heimahögunum í Önundarfirði.
Halla segir loftið ekki þungt og það hjálpi til að vindurinn hreyfi loftið. „Það er alveg hægt að vera úti en maður finnur alveg fyrir þessu í augunum,“ segir hún.
Að sögn Höllu fengu Önfirðingar yfir sig gosmóðu úr eldgosunum í Fagradalsfjalli árið 2021 og Meradölum árið 2022. Vestfirðingar séu ekki stikkfrí frá jarðhræringum landsins.

„Við fáum ekki skjálfta og ekki eldgos en við fáum móðuna.Ef þú getur ekki komið að gosinu kemur gosið til þín,“ segir Halla.
Mjakar sér í átt að Tröllaskaga
Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að stofunni hafi borist tilkynning um gosmóðu frá snjóflóðaathugunarmanni sem staddur var í Ísafjarðardjúpi.
Stofan fékk í dag gervitunglamynd sem tekin var klukkan 13:39 í gær. Hún sýnir magn gosmóðunnar frá Reykjanesskaga, eða SO2 brennisteinsdíoxíðs, yfir landinu. Þá var móðan komin inn á Breiðafjörð og Magnúsi þykir ekki ólíklegt að hún hafi dreifst yfir Vestfirði í dag.

„Myndirnar benda til þess að móðan sé komin yfir Vestfirði og sé að mjaka sér austur í átt að Tröllaskaga,“ segir hann.
Magnús gerir þó ráð fyrir að móðan sé búin að þynnast nokkuð og styrkleikinn sé minni en nálægt gosstöðvunum.
Á morgun snýst vindáttin til suðurs og um miðjan dag blæs móðunni austur yfir þéttbýlisstaði í Árnessýslu.