Hinn 28 ára gamli Starfelt hefur spilað með skoska liðinu Celtic undanfarin tvö tímabil en er nú á leiðinni til spænska félagsins Celta Vigo.
Celta Vigo are closing in on Carl Starfelt deal with Celtic permanent transfer being agreed this weekend
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) August 5, 2023
Personal terms agreed and clubs now on the verge of completing the deal. pic.twitter.com/e63VsLEeIO
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Celtic, sér eftir leikmanninum en hrósar honum líka fyrir að elta ástina.
Starfelt gerir fjögurra ára samning við spænska félagið.

Kærasta Starfelt er fyrrum leikmaður kvennaliðs Celtic. Hin 22 ára gamla Jacynta Galabadaarachchi samdi nýverið við lið Sporting frá Lissabon. Hún er ættuð frá Ástralíu, þykir mjög efnilegur leikmaður og skoraði 15 mörk í 25 leikjum á síðustu tveimur árum.
Það er langt frá Glasgow til Lissabon en mun styttra að fara frá Vigo sem er rétt norður af landamærum Spánar og Portúgals.
„Svona virkar fótboltaheimurinn. Þetta er tækifæri fyrir Carl. Hann stóð sig vel undanfarin ár, hann er góður gæi og lagði mikið á sig á undirbúningstímabilinu,“ sagði Brendan Rodgers.
„Þegar þú horfir á stóru myndina þá hef ég líka tekið ákvarðanir sem taka mið á fjölskylduaðstæðum. Carl er greinilega í sterku sambandi og við öll tökum ákvarðanir með fjölskyldu okkar í huga,“ sagði Rodgers.
Það er annar gamall Liverpool stjóri sem tekur við Carl Starfelt því knattspyrnustjóri Celta Vigo er Rafael Benítez.