Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir að samtökin muni óska eftir samtali við dómsmálaráðherra um flóttafólk sem búið er að svipta rétti á þjónustu samkvæmt breyttum útlendingalögum og eru nú heimilislaus, en allt að 30 hælisleitendur eru í þeirri stöðu núna. Hún segir það ekki ganga upp að vísa fólkinu á sveitarfélögin án nokkurs samtals.
„Ef að markmiðið með lögunum var að svipta fólk fæði og húsaskjóli svo það færi af landi þá er verið að færa vandann yfir á sveitarfélögin með því að ætlast til þess að þau taki við þeim og veiti þeim neyðarhúsnæði og framfærslu,“ segir Regína og að það þurfi að skýra betur þennan enda laganna og hvað eigi að gera þegar fólk er með komið endanlega synjun en getur ekki eða vill ekki sýna samstarfsvilja eða fara af landi brott.
„Það getur auðvitað ekki búið úti á götu og við getum ekki af mannúðarsjónarmiðum horft upp á fólk án matar. Það er alveg ljóst að fólk mun banka upp á hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna og við erum í vanda og það er ekki hægt að setja svona löggjöf án þess að skýra út þennan enda,“ segir Regína og bendir á að Samband íslenskra sveitarfélaga hafa til dæmis varað við þessu þegar lögin voru sett og að það ætti ekki að velta vandanum yfir á sveitarfélögin.
„Það þarf að finna einhverja leið og ég heyrði í viðtali um helgina að í einhverjum löndum eru ekki bara móttökubúðir heldur líka búðir fyrir þau sem eiga að fara af landi og það er eitthvað sem stjórnvöld eiga þá að huga það,“ segir Regína og ekki sé hægt að vísa vandanum á sveitarfélögin.
Þannig þið viljið ekki taka við þessu fólki?
„Við auðvitað erum bundin okkar félagsþjónustulögum og mannúðarsjónarmið, að við látum fólk auðvitað ekki svelta í sveitarfélögunum en við viljum fá eitthvað samtal og skýringar frá ríkinu hvað er ætlunin hjá þeim varðandi þessa einstaklinga,“ segir Regína og að hún skilji ekki ef markmið laganna er að fólk fái ekki áframhaldandi þjónustu hvernig þau telja sig vera að ná markmiðinu með því að vísa vandanum yfir á sveitarfélögin.

Hún bendir á að þótt svo að þau séu bundin af lögum til að þjónusta fólk þá gildi það aðeins um fólk með kennitölu, sem flóttafólkið sé oftast ekki með, en fjallað er um þetta í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nánar.
„Það er eitthvað sem ekki stemmir þarna,“ segir hún og að það verði að hnýta þessa hnúta. Hún segir augljóst að fólk verði að fá einhverja framfærslu.
„Það vill enginn horfa upp á fólk í svona mikilli neyð,“ segir Regína og bendir á að þau úrræði sem þegar eru fyrir heimilislausa eru þétt setin og að einhverju leyti skipuð ólíkum hópi með ólíkar þarfir en stór hluti þeirra sem þangað leitar er með þungan vímuefnavanda og að erfitt væri að blanda þessum hópum saman í þau úrræði sem þegar eru.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í viðtali við RÚV um helgina að brotið væri blað með þessum breytingum í lögum og bæjarstjóri Hafnarfjarðar, þar sem þetta fólk er vistað í lokaúrræði, segir þau ekki hafa tök á að taka við þeim í sína félagsþjónustu.
„Ég skil sjónarmið bæjarstjórans í Hafnarfirði og tek undir það sem borgarstjóri segir að þarna er verið að brjóta blað í sögu heimilislausra ef flóttafólk sem ekki fær vernd á Íslandi, eða hælisleitendur sem ekki eru komin með stöðu, ef það á að vísa þeim á sveitarfélögin er ekki verið að klára málið af hálfu ríkisins.“
Hún segir að þeirra næsta skref að óska eftir fund og tekur undir orð kollega sinna í Reykjavík og Hafnarfirði.
„Við munum, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, ráða ráðum okkar og óska eftir fundi um þessi mál. Við setjum okkur í samband við ráðuneytin og óska eftir fundi. Það er mjög mikilvægt að það gerist sem fyrst.“