Enski boltinn

Á­fall fyrir Eng­lands- og Evrópu­meistarana

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gæti verið frá keppni fram að jólum.
Gæti verið frá keppni fram að jólum. Copa/Getty Images

Kevin de Bruyne, einn mikilvægasti leikmaður Englands- og Evrópumeistara Manchester City, verður frá næstu þrjá til fjóra mánuðina vegna meiðsla sem hann varð fyrir í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

De Bruyne var hreint út sagt magnaður á síðustu leiktíð þegar Man City vann þrennuna svokölluðu, það er deild, bikar og Evrópu. Alls tók hann þátt í 49 leikjum, gaf 31 stoðsendingu og skoraði 10 mörk.

Hann spilaði hins vegar aðeins 36 mínútur í úrslitum Meistaradeildar Evrópu vegna meiðsla sem voru enn að plaga hann þegar Man City mætti Burnley í fyrsta leik tímabilsins. Eftir að hafa ekki tekið fullan þátt í undirbúningstímabili City kom á óvart að De Bruyne skildi byrja gegn Burnley og nú virðist það hafa komið í bakið á meisturunum.

Hinn 32 ára gamli De Bruyne yfirgaf völlinn snemma leiks og verður frá keppni næstu 3-4 mánuðina. Þetta staðfesti Pep á blaðamannafundi fyrr í dag. Um er að ræða „alvarleg meiðsli“ samkvæmt Guardiola og gæti leikmaðurinn þurft að fara í aðgerð.

Man City hóf tímabilið á 3-0 sigri gegn Burnley en nú þarf Guardiola að finna út hvernig hann fyllir skarð De Bruyne sem og İlkay Gündoğan en sá síðarnefndi fór til Barcelona eftir að City-menn tryggðu sér þrennuna síðasta vor.


Tengdar fréttir

De Bruyne gæti verið lengi frá: „Sama og í Meistaradeildinni“

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, var að vonum ánægður með 3-0 sigur sinna manna gegn Burnley í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Hann var hins vegar ekki jafn ánægður með meiðsli eins síns besta leikmanns, Kevin De Bruyne.

Englandsmeistararnir hófu titilvörnina á öruggum sigri

Englandsmeistarar Manchester City unnu öruggan 3-0 útisigur er liðið heimsótti Burnley í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Norðmaðurinn Erling Braut Haaland hélt uppteknum hætti frá síðasta tímabili og skoraði tvö fyrir gestina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×