Enski boltinn

Hættur að æfa til að þvinga í gegn fé­laga­skiptum til Man City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vill komast til Man City og það strax.
Vill komast til Man City og það strax. Jack Thomas/Getty Images

Matheus Nunes, miðjumaður enska knattspyrnuliðsins Wolverhampton Wanderers, er farinn í verkfall til þess að þvinga í gegn vistaskiptum sínum til Englandsmeistara Manchester City.

Hinn 25 ára gamli Nunes hefur spilað með Úlfunum síðan í haustið 2022 eftir að félagið greiddi fyrir hann metfé.

Ekki er langt síðan í ljós kom að Englandsmeistarar Man City vildu fá Portúgalann í sínar raðir en liðið heldur þunnskipað á miðsvæðinu og þá er óvíst hversu lengi Kevin de Bruyne verður frá keppni.

Úlfarnir, sem borguðu 45 milljónir evra fyrir Nunes á síðasta ári, hafa hingað til neitað tilboðum Man City en það síðasta hljóðaði upp á 55 milljónir evra (tæpa 8 milljarða íslenskra króna).

David Ornstein, blaðamaður á The Athletic, hefur greint frá því að Nunes sé farinn í verkfall til að þvinga félagaskiptin í gegn. Úlfarnir eru í fjárhagsvandræðum og hafa selt þó nokkra leikmenn í sumar án þess að fylla skörð þeirra almennilega.

Man City ætla skv. Ornstein ekki að hækka verðið og treysta á að Úlfarnir samþykki það áður en félagaskiptaglugginn á Englandi lokar á miðnætti þann 1. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×