Meðal þeirra 260 gesta sem mættu voru Eliza Reid forsetafrú Íslands og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem opnaði hátíðina. Sendiherrar og sendifulltrúar allra Norðurlandanna voru einnig viðstaddir ásamt fjölmiðlafulltrúum og samstarfsaðila.


Dómararnir áttu létt verk fyrir höndum
Plamena Cherneva, stofnandi Nordic Women In Tech Awards, segir Íslendinga hafa sýnt stuðning í verki með aðkomu sinni að hátíðinni.

„Umgjörðin í Hörpu er mögnuð andrúmsloftið frábært þar sem ríkti mikil og hvetjandi stemning meðal gesta. Sjálf á ég afar auðvelt með að heillast af þeim konum sem tilnefndar eru hverju sinni en dómarar þessa árs áttu í rauninni létt verk fyrir höndum.

Sérhver sigurvegari, sem og allar konur í úrslitum eru leiðtogar á sínu sviði. Það er okkur sönn ánægja að veita þeim viðurkenningu fyrir störf sín, leiðsögn og frumkvæði. Við hlökkum til að sjá öll í Noregi á næsta ári.“
Heiðra framúrskarandi fyrirmyndir
Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin hér á landi.
Ingibjörg Lilja Þórmundardóttir, mannauðsstjóri Helix Health og stjórnarkona WTI segir það ótrúlegan heiður að fá verðlaunaafhendinguna til Íslands.

„Þetta var valdeflandi kvöld þar sem við fögnuðum konum í tæknigeiranum. Það er mikilvægt að staldra við og heiðra kvenkyns fyrirmyndir sem eru að gera framúrskarandi hluti. Í atvinnugrein sem er að stærstu leyti rekinn er af körlum verðum við að skapa öflug tengsl milli kvenna í geiranum.“
Sigur okkar allra
Sjálf var Ingibjörg tilnefnd til verðlaunanna en komast því miður ekki í loka úrtakið. Hún segir samstöðuna sem ríkti í Hörpu þetta kvöld hafa verið ólýsanlega.

„Það er svo mikilvægt að við konur lærum af reynslu hver annarrar. Sækjum innblástur og vinnum samstíga að markmiðum okkar. Síðast en ekki síst verðum við að veita stuðning og veita hver annarri vængi. Saman erum við nefnilega náttúruafl og mesti sigurinn er að sjá konu í geiranum ná árangri því það er sigur okkar allra.“

Lista yfir verðlaunahafa hátíðarinnar má nálgast HÉR en myndir frá hátíðinni má sjá hér fyrir neðan.














