„Vinnuflokkarnir fóru inn á svæðið í samráði við Almannavarnir snemma í morgun og það eru auðvitað bilanir á mörgum stöðum en við teljum stóru bilunina vera vegna bilunar í aðalfæðingu til þessa hluta Grindavíkur. Það gekk vel að finna þá bilun og nú verið að athuga hvort hæ gt sé að laga það með einhverjum hætti á næstunni,“ segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna.
Vonir standi um að hægt verði að koma rafmagni aftur á þennan hluta bæjarins.
„En kerfið er auðvitað mikið laskað víða um bæinn þannig að það er ómögulegt að segja á þessari stundu.“
Hafið þið áhyggjur af því að það geti verið hættulegt að vera inni í bænum?
„Jú, þetta eru náttúrulega bara náttúruhamfarir sem standa yfir. Þar að auki eru starfsmenn HS Veitna að vinna við hættulegar aðstæður, sem varða rafmagn og heitt vatn. Við förum eftir öllum öryggisreglum og vöndum okkur varðandi allar aðstæður en gerum okkar besta.“
Hann sagði að í hádeginu hafi verið að ferja efni til Grindavíkur. Enginn augljós tímarammi sé fyrir verkið.
„Vonumst til að þetta náist á næstu tveimur eða þremur tímum en það er ómögulegt að segja.“