Í kvöldfréttum okkar í gær sagðist forsætisráðherra ekki telja að álit umboðsmanns Alþingis um hvalveiðibann Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í sumar væri ástæða til afsagnar ráðherrans. Umboðsmaður taldi lagastoð hafa skort fyrir banninu og að meðalhófs hefði ekki verið gætt.
Prófessor í stjórnmálafræði bendir á að forsætisráðherra hafi þegar rætt við formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir að álitið kom fram á föstudag.
„Það þýðir væntanlega að hvorki Bjarni né Sigurður Ingi hafi krafist að hún segi af sér. Þannig að hópurinn sem talar svona fyrir því að það sé að minnsta kosti eðlilegt að hún segi af sér, eru einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem lengi hafa verið órólegir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði.
Sjálfstæðismenn verji Svandísi ekki með glöðu geði
Einhverjir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa kallað eftir afsögn Svandísar vegna málsins, til að mynda Gísli Rafn Ólafsson í Pírötum og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Ólafur bendir á að tvær vantrausttillögur á dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks hafi verið felldar á kjörtímabilinu með hjálp þingmanna VG.
„Ef það verður þannig að það verði borin fram vantrauststillaga og Sjálfstæðismenn munu ekki bara gera það með óbragð í munni, heldur kyngja ælunni eins og Brynjar Níelsson komst nú gjarnan að orði. Það er alveg augljóst að þeir munu ekki fella vantraust á Svandísi með glöðu geði, ekki frekar en VG-liðarnir felldu vantraust á þessa dómsmálaráðherra.“
Líklegast sé að forystufólk innan Sjálfstæðisflokks meti stöðuna svo að mikilvægara sé að halda samstarfinu gangandi, í það minnsta fram yfir næstu kjarasamninga.
Brestirnir sífellt háværari
Spurður segir Ólafur að málinu sé á vissan hátt lokið.
„Í þeim skilningi að það verði ekki nein stórtíðindi núna á næstunni. En hins vegar mun þetta mál auðvitað sitja í bæði Vinstri grænum og auðvitað Sjálfstæðismönnum.“
Heldurðu að stjórnin springi út af þessu?
„Nei, ég held að hún springi ekki út af þessu,“ segir Ólafur
Hann telji þó sáralitlar líkur á að stjórnin haldi eftir næstu kosningar, sem að óbreyttu yrðu haustið 2025, miðað við fullt fjögurra ára kjörtímabil.
„Eiginlega alveg sama hvernig þær fara. En ég held ennþá að það sé líklegra að það haldi út kjörtímabilið, eða að minnsta kosti til vorsins 2025, þó að brestirnir séu sífellt að verða háværari og háværari.“