Hann segir að allir sem að leitinni koma standi sig ótrúlega vel miðað við það hversu erfiðar aðstæður eru á vettvangi. Nú sé unnið að því að moka grjóti og öðrum jarðvegi upp úr sprungunni til þess að auka aðgengi að henni og auðvelda leit að manninum.
„Það hefur aðeins rofað til. Við erum að ná grjóti sem hefur verið fyrir okkur. Þannig að það er gangur en hann er mjög hægur.“
Okkar færasta fólk sem fer niður
Hjálmar segir að þau sem láta sig síga niður í sprunguna séu fagfólk sem hefur mikla reynslu af klettabjörgunum, rústabjörgunum og sprungubjörgunum.
„Þetta er okkar færasta fólk sem ferð þarna niður í mjög erfiðar aðstæður. Við leggjum mikið upp úr öryggi og þar af leiðandi tekur þetta mun lengri tíma. En þetta gengur mjög vel miðað við það sem við höfum áætlað.
Sex metra djúp þar sem hún er grynnst
Hann segir að um það bil sex metrar séu niður á botn sprungunnar þar sem sigið er niður og talsvert dýpra þar til hliðar.
Þá segir Hjálmar að lögreglan telji fulla ástæðu til þess að halda leit áfram þar til að maðurinn finnst. „Ég heyrði í mönnum áðan, það er enginn beygur í þeim. Við skiptum út mönnum sem fara niður. Það gengur bara mjög vel og miðað við þessar erfiðu aðstæður eru allir að standa sig ótrúlega vel.“

Ekki gott hljóð í Grindvíkingum
Hjálmar segir að hljóðið í þeim Grindvíkingum sem hann hefur heyrt í í dag sé ekki gott. Mikið hafi dunið á Grindvíkingum undanfarið og atburðir gærdagsins séu ekki til að bæta það. Hugur allra sé þó fyrst og fremst hjá fjölskyldu mannsins.
Hann segist telja það eðlilega ákvörðun að hægja á framkvæmdum við viðgerðir í Grindavík í kjölfar slyssins. Þó sé réttlætanlegt að leyfa Grindvíkingum að vera áfram í bænum. Þeir sem eru í Grindavík geri sér grein fyrir því hvar þeir búa.
„Það góða í þessu er að varnargarðarnir eru að verða komnir upp og það er ýmislegt annað gott í þessum ömurlegu aðstæðum sem við erum í núna.”