Þetta kom fram í fyrirspurnartíma í morgun en þar kvaddi Jóhann Páll sér hljóðs og vildi tala um heilbrigðiskerfið og þá heilsugæsluna sérstaklega en þar hefur staðan þyngst gríðarlega á undanförnum árum. Heilsugæslan fær stöðugt flóknari verkefni í fangið án þess að sú þjónusta sé fjármögnuð almennilega.
„Bið eftir þjónustu lengist og mönnunarvandinn ágerist, þá er skriffinnska og vottorðagerð, og handtök fyrir framan tölvuskjá í handónýtu og úreltu sjúkraskrárkerfi, að aukast með hverju árinu,“ sagði Jóhann Páll og brýndi þá raustina:
„504.670 vottorð á þriggja ára tímabili hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og mikið til vottorð vegna skammtímaveikinda,“ sagði Jóhann Páll. Og greindi frá því að hann hefði rætt við heimilislækni á dögunum.

„Hann lýsti því þannig að hann væri aftur og aftur að finna sig, nauðugan viljugan, í einhvers konar varðhundshlutverki fyrir atvinnurekendur, sem væru að nota kröfuna um veikindavottorð sem ögunartæki gagnvart starfsfólki, og alltaf auðvitað lágtekjufólki og innflytjendum.“
Þetta sagði þingmaðurinn misnotkun á heilbrigðiskerfinu og hann spurði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hvað hann hyggðist gera í þessu?
„Ætlar ráðherra ekkert að gera með tillögur frá starfshópi um vottorðagerð sem skilaði af sér fyrir hátt í tveimur árum, hvað er að frétta? Til hvaða aðgerða ætlar hæstvirtur heilbrigðisráðherra að grípa til að heilbrigðisstarfsfólk geti varið minni tíma í skriffinnsku og meiri tíma í að sinna sjúklingum?“