Mbl greindi frá afskiptum lögreglu af manninum og hefur þar eftir bréfi sem sent var á forráðamenn barna í Ingunnarskóla.
Fyrr í dag fjallaði Vísir um að Hildur Jóhannesdóttir, skólastjóri Dalskóla, hefði í pósti varað foreldra og forráðamenn barna í skólanum við dæmdum kynferðisbrotamanni sem leitaði í laugina.
Í bréfinu kom fram að maðurinn spjallaði reglulega við drengi á skólatíma og að næst þegar hann kæmi í hús yrði hann kallaður inn til forstöðumanns, ásamt skólastjórnanda og kallað yrði á lögregluna.
Mbl greinir frá því að eftir að fyrra bréfið var sent á forráðamenn Dalskóla hafi annað bréf verið sent á foreldra barna í Ingunnarskóla. Þar var greint frá því að maðurinn hefði farið í laugina á skólatíma, áðurnefnt verkferli hefði verið virkjað, lögreglan verið kölluð til og haft afskipti af honum.
Samkvæmt heimildum fréttastofu á maðurinn að baki tvo fangelsisdóma. Annars vegar fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertum unglingsdreng og hins vegar fyrir að hafa í fórum sínum gríðarlega mikið magn barnaníðsefnis. Annar dómurinn var á þriðja ár í fangelsi og hitt á fjórða ár.