Fótbolti

Trúir að Burnley snúi aftur upp: „Er ekki að væla og vor­kenna okkur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vincent Kompany og lærisveinar hans í Burnley eru fallnir úr ensku úrvalsdeildinni.
Vincent Kompany og lærisveinar hans í Burnley eru fallnir úr ensku úrvalsdeildinni. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Burnley, segist ekki ætla að vorkenna sjálfum sér eftir að liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni í gær.

Það varð endanlega staðfest að Burnley myndi ekki bjarga sér frá falli eftir að liðið mátti þola 2-1 tap gegn Tottenham í gær. Burnley er nú með 24 stig þegar ein umferð er eftir, fimm stigum frá öruggu sæti.

„Ég er ekki að væla og vorkenna okkur, en ef þú horfir á hvern leik og hvert tímabil sem tækifæri til að læra þá er þetta skref sem við þurfum að taka,“ sagði Kompany eftir tapið í gær.

„Í dag er tíma okkar í úrvalsdeildinni lokið, en á morgun er fyrsti dagur í að gera allt sem í okkar valdi stendur til að komast aftur upp í deild þeirra bestu.“

Burnley flaug upp í úrvalsdeildina á síðasta tímabili þar sem liðið nældi sér í 101 stig. Stökkið upp í úrvalsdeildina hefur þó reynst liðinu erfitt og Burnley hefur aðeins unnið fimm leiki af 37 á tímabilinu.

„Það er of snemmt að segja til um hvort ég hefði átt að gera hlutina eitthvað öðruvísi. Ég er stanslaust að hugsa um hvað við getum gert betur,“ bætti Kompany við, en hann skrifaði undir fimm ára samning við félagið í kjölfar þess að koma liðinu upp.

„En ef við horfum á þetta tímabil sem eitthvað sem bætir okkur, bæði sem félag og sem leikmannahóp, þá græddum við mikið á þeirri reynslu sem við náðum okkur í á tímabilinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×