Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við fréttastofu.
Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögreglustjóri á Suðurlandi, sagði fyrr í dag í samtali við fréttastofu að ummerki væru um að vegur hafi gefið sig að hluta þegar slysið varð. Um borð í rútunni voru 26 félagar í Lionsklúbbnum Dynki í hópferð, auk bílstjóra.
Sjö voru fluttir á slysadeild í Reykjavík með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar, en aðrir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
G. Pétur segir að þrátt fyrir að skoða þurfi málið miklu betur gátu starfsmenn á vegum Vegagerðarinnar ekki séð ummerki um að vegurinn hafi gefið sig. Hann bendir til dæmis á að hjólförin hefðu farið út fyrir veginn, eins og sést á myndum af vettvangi.
„Við viljum skoða þetta miklu betur. En okkar starfsmenn sáu ekki þess merki í gær að vegurinn hefði gefið sig,“ segir hann.
Hann segir þó að það sé of snemmt til að fullyrða um tildrög slyssins. Til að hægt sé að læra af slysum verði maður að vita fyrir víst hvað gerðist.
„Þess vegna er mjög hættulegt að ákveða fyrirfram hvað olli slysi. Það þarf að skoða það miklu betur,“ segir hann.