Bryndís Klara var nemandi við Verslunarskóla Íslands og í blóma lífsins. Þjóðin er slegin vegna málsins og samnemendur Bryndísar og kennarar skólans eru eðli málsins samkvæmt í sárum. Kári Einarsson, forseti nemendafélags Verslunarskólans, segir að nemendurnir hafi viljað gera eitthvað fallegt í minningu Bryndísar Klöru.

„Við sendum þau skilaboð út í Facebook hóp skólans og nemendafélagsins í gærkvöldi, eftir minningarathöfnina, og báðum alla um að mæta bleika í skólann í dag. Ástæðan fyrir því er sú að bestu vinkonur hennar mættu í bleiku í minningarathöfnina í gær, og sögðu að þetta hefði verið uppáhaldsliturinn hennar og að hún hefði elskað allt bleikt,“ segir Kári en á samtalinu mátti heyra og finna hversu mjög þetta skelfingarmál hefur fengið á hann.

Og það var greinilegt á göngum skólans í dag að nemendurnir vilja heiðra minningu Bryndísar Klöru.
„Já, ég er á þriðja ári og forseti nemendafélagsins og ég hef aldrei séð jafn marga í þema.
Er það ekki bara lýsandi fyrir það hversu svakalega elskuð Bryndís Klara var?
„Algjörlega, hundrað prósent.“
Kári segir að andrúmsloftið í skólanum sé eðlilega afar þungt. Allir séu í sárum.
„Maður sér alveg á kennurunum, þeir eru líka foreldrar, þetta snertir alla. En það er bara svo gott að senda falleg skilaboð með þessu, taka höndum saman og bæta samfélagið okkar.“

Nú þurfi að auka fræðslu til muna
Þegar Kári var spurður hvað hann og samnemendur hans myndu vilja sjá gerast í kjölfar þessara hræðilegu atburða stóð ekki á svörum.
„Það þarf náttúrulega að auka fræðslu, númer eitt, tvö og þrjú. Við erum búin að sjá þetta í samfélaginu í nokkur ár að það sé eitthvað í gangi og að unglingar séu miklu meira hlynntir ofbeldi og finnist það miklu eðlilegra en nú þarf bara fræðslu, fræðslu á landsvísu.“
Kári vildi fá að vitna í orð foreldra Bryndísar.
„Og segja bara: Við ætlum öll að gerast riddarar og gera kærleikann að eina vopninu,“ sagði Kári.