Fótbolti

Enn eitt flautumark Leverkusen og Dortmund stein­lá

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Victor Boniface reyndist hetja Bayer Leverkusen í dag.
Victor Boniface reyndist hetja Bayer Leverkusen í dag. Rene Nijhuis/MB Media/Getty Images

Þrír leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Bayer Leverkusen vann enn einn sigurinn með marki á síðustu andartökum leiksins og Borussia Dortmund steinlá í heimsókn sinni til Stuttgart.

Bayer Leverkusen vann dramatískan 4-3 sigur er liðið tók á móti Wolfsburg þar sem gestirnir tóku forystuna strax á fimmtu mínútu þegar Nordi Mukiele varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. 

Florian Wirtz og Jonathan Tah komu heimamönnum í Bayer Leverkusen hins vegar í forystu með mörkum á 14. og 32 mínútu áður en gestirnir snéru taflinu við á nýjan leik með mörkum frá Sebastiaan Bornauw og Mattias Svanberg seint í fyrri hálfleik.

Liðsmenn Leverkusen eru ekki þekktir fyrir að gefast upp og Piero Hincapie jafnaði metin fyrir heimamenn strax í upphafi síðari hálfleiks.

Á 88. mínútu komu gestirnir í Wolfsburg sér svo í vandræði þegar Yannick Gerhardt fékk að líta beint rautt spjald. Bayer Leverkusen nýtti sér liðsmuninn og Victor Boniface tryggði liðinu dramatískan 4-3 sigur með marki á þriðju mínútu uppbótartíma.

Eftir sigurinn situr Bayer Leverkusen í örðu sæti deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki, þremur stigum minna en topplið Bayern München. Wolfsburg situr hins vegar í 13. sæti með þrjú stig.

Þá mátti Dortmund þola 5-1 tap er liðið heimsótti Stuttgart, en St. Pauli og RB Leipzig gerðu markalaust jafntefli. Deniz Undav skoraði tvívegis fyrir heimamenn í Stuttgart gegn Dortmund og þeir Ermedin Demirovic, Enzo Millot og El Bilal Toure skoruðu eitt mark hver. Serhou Guirassy skoraði mark gestanna þegar hann minnkaði muninn í 3-1 á 75. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×