Sprengingarnar vöktu nágranna sendiráðsins í Hellerup af værum blundi á fjórða tímanum í nótt að staðartíma. Lögreglan segir að þær hafi valdið tjóni á nærliggjandi byggingum en engan sakaði. Tilefnið liggur ekki fyrir og lögregla segir ekki hægt að fullyrða að svo stöddu hvort sendiráðið hafi verið skotmarkið.
Ungmennin þrjú sem voru handtekin í dag eru á aldrinum fimmtán til tuttugu ára, að sögn sænska ríkissjónvarpsins. Þau eru grunuð um ólöglegan vopnaburð. Eitt þeirra var handtekið á vettvangi en hin tvö á lestarstöð í miðborg Kaupmannahafnar. Þau eiga að koma fyrir dómara á morgun.
Nokkur önnur sendiráð eru í hverfinu þar sem sprengingarnar urðu, þar á meðal sendiráð Rúmeníu, Taílands, Írans og Tyrklands.
Á meðal þess sem er til rannsóknar er hvort að sprengingarnar tengist því að skotið var að ísraelska sendiráðinu í Stokkhólmi í gærkvöldi.
Ísraels stjórnvöld hafa um magra mánaða skeið legið undir harðri gagnrýni fyrir framferði sitt á Gasaströndinni. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs hefur stigmagnast enn frekar á síðustu dögum með árásum Ísraela á Hezbollah-samtökin í Líbanon. Íranar skutu flugskeytum á Ísrael í gærkvöldi og hafa ísraelsk stjórnvöld hótað hefndum fyrir þær árásir. Hezbollah nýtur stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran.