Innlent

Fluttur úr landi grunaður um að valda gassprengingu sem drap einn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Landsréttur úrskurðaði um gæsluvarðhald í málinu.
Landsréttur úrskurðaði um gæsluvarðhald í málinu. Vísir/Vilhelm

Pólskur karlmaður var afhentur til Póllands frá Íslandi á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar í vetur vegna meintra brota hans í heimalandinu. Hann er grunaður um að hafa valdið mannskæðri gassprengingu.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði á hendur manninum frá nóvember síðastliðnum segir að maðurinn sé grunaður um almannahættubrot og eignaspjöll. Hann er talinn hafa, þann 7. nóvember 2017 , aftengt gasleiðslu svo gas lak, og svo borið eld að. Fyrir vikið varð gassprenging og eldsvoði þar sem einn lét lífið og fjöldi annarra var í hættu.

Fram kemur að brot mannsins geti varðað allt að tólf ára fangelsi samkvæmt pólskum hegningarlögum.

Maðurinn var handtekinn hér á landi vegna evrópskrar handtökuskipunar frá pólskum yfirvöldum.

Það var mat ríkissaksóknara að nauðsynlegt væri að maðurinn yrði í haldi vegna meðferðar málsins. Hann var sagður eiga lítil tengsl við Íslands, og að hann hefði ekki fyllilega sinnt tilkynningarskyldu sinni. Þá segir að hann hafi frá því að málið kom upp mótmælt afhendingu til Póllands.

Lögreglan taldi einnig mikilvægt að hann yrði í gæsluvarðhaldi. Það væri auðvelt fyrir eftirlýstan mann að leynast hér á landi og komast þannig undan afhendingu. Þá væri mikil hætta á því að hann myndi reyna að komast úr landi þar sem lítil landamæragæsla væru á innri landamærum Schengen-svæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×