Orðrómur þess efnis hefur gengið og hefur stjórnarandstaðan krafist svara frá forsætisráðherra.
Á vef stjórnarráðsins segir að kjaradeila kennara hafi verið rædd í ríkisstjórn Íslands og leitað leiða til að liðka fyrir sátt í deilunni, svo sem með því að flýta virðismati starfa eða almennum aðgerðum í menntamálum.
„Að gefnu tilefni vekur mennta- og barnamálaráðuneytið athygli á því að ráðherra og ráðuneytið eru ekki aðilar að kjarasamningum kennara. Hvorki Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, né starfsmaður á hennar vegum hefur boðið eða gefið vilyrði um launahækkun til kennara,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að Ásthildur hafi hitt forystu Kennarasambandsins á fundi síðastliðinn fimmtudag ásamt Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, Daða Már Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra sem og með formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Heyrðu af loforði um tveggja prósenta hækkun
Þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna þriggja kröfðu forsætisráðherra um svör í tilkynningu sem þau sendu fyrr í dag.
„Hæstvirtur mennta- og barnamálaráðherra, eða starfsmaður á hans vegum, er sagður hafa boðið, fyrir hönd ríkisins, 2% hækkun til viðbótar við það sem þegar var á borðinu. Ríkissjóður tæki á sig þann kostnað, að minnsta kosti til að byrja með, til að liðka fyrir deilunni, þrátt fyrir að ráðherra hafi enga beina aðkomu að samningum sem þessum, og er það ekki að ástæðulausu,“ sagði í tilkynningu stjórnarandstöðunnar.