Brighton sneri við eftir að hafa lent snemma undir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kaoru Mitoma skoraði sigurmark Brighton eftir að liðið lenti snemma undir.
Kaoru Mitoma skoraði sigurmark Brighton eftir að liðið lenti snemma undir. Steve Bardens/Getty Images

Brighton er komið áfram í sextán liða úrslit FA bikarsins eftir 2-1 sigur gegn Chelsea. Franski framherjinn Georginio Rutter kom að báðum mörkum heimamanna, sem lentu snemma undir.

Chelsea tók forystuna strax á fimmtu mínútu þegar markmaðurinn Bart Verbruggen misreiknaði sig skelfilega og sló boltann óvart í eigið net.

Sjö mínútum síðar var leikurinn hins vegar jafn á ný. Georginio Rutter stangaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Joel Veltman.

Georginio Rutter stangaði boltann í netið og gaf svo stoðsendingu á Kaoru Mitoma.Shaun Brooks - CameraSport via Getty Images

Staðan hélst jöfn þar til í upphafi seinni hálfleiks þegar Kaoru Mitoma tók forystuna fyrir Brighton með frábærri afgreiðslu eftir stoðsendingu frá fyrri markaskoraranum Rutter. Gott samspil hjá þeim tveimur sem leiddi til marksins.

Leikurinn var fjörugur alveg til enda, Cole Palmer átti klippuskot sem flaug rétt framhjá, Brighton vildi fá vítaspyrnu þegar Joao Pedro féll við í teignum og Noni Madueke fékk algjört dauðafæri í uppbótartíma, en fleiri mörk voru ekki skoruð og 2-1 urðu lokatölur.

Brighton heldur því áfram í sextán liða úrslit FA bikarsins. Dregið verður um andstæðinga á mánudaginn. 

Chelsea mun þó fá tækifæri til að hefna sín næsta föstudag þegar liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni, aftur á heimavelli Brighton. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira