Meðal gesta á opnuninni voru eldfjallafræðingarnir Þorvaldur Þórðarsson og Ármann Höskuldsson, leikkonan Birna Rún Eiríksdóttir, Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastýra FKA, Magnea Björg úr LXS og Jón Jósep Snæbjörnsson, betur þekktur sem Jónsi í Svörtum fötum.
Í tilkynningu frá aðstandendum segir að Volcano Express eigi sér engan samanburð á heimsvísu. Með nýrri kvikmyndatækni fái gestir innsýn í eldvirkni Íslands. Gestir sitja í hreyfisætum og finna, á meðan sýningunni stendur, fyrir krafti jarðskjálfta, fá tilfinningu fyrir flugi og falli og skynja bæði hita hraunsins og kulda íslenska vetrarins.
Sýningin er rekin í rými í kjallara Hörpu, K2, en vegna mikillar lofthæðar sem þarf fyrir sýninguna nær salurinn upp í K1. Tugir hátalara eru í rýminu og stærsti LED-skjár landsins. Vinnan við gerð Volcano Express hófst árið 2021 og var myndefni sýningarinnar tekið upp á eldsumbrotaárunum 2021–2024.










