Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, orkumálaráðherra hennar og eiginkona bandaríska varaforsetans ætla að leiða sendinefnd til Grænlands síðar í vikunni. Heimsóknin er í óþökk bæði grænlensku landsstjórnarinnar og danskra stjórnvalda og tengist síendurteknum yfirlýsingum ríkisstjórnar repúblikana um að hún vilji innlima Grænland.
Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í dag að heimsóknin snerist hvorki um hvað Grænland vildi eða þyrfti. Ekki væri hægt að líta á hana í öðru ljósi en því að Bandaríkin ásælist Grænland.
„Ég verð að segja að þetta er óásættanlegur þrýstingur sem er settur á Grænland og Danmörku í þessum aðstæðum. Það er þrýstingur sem við munum standast,“ sagði Frederiksen við danska fjölmiðla í dag.
Múte Egede, starfandi formaður grænlensku landsstjórnarinnar, lýsti hugmyndinni sem ögrun í gær þar sem stjórnarmyndunarviðræður standi enn yfir eftir þingkosningar fyrr í þessum mánuði og kosið verði til sveitarstjórna í næstu viku.
Talsmaður Hvíta hússins segir að tilgangur sendinefndarinnar sé að fræðast um Grænland, menningu þess, sögu og þjóð, að því er segir í frétt Reuters.