Dúbaí-súkkulaði náði fyrst eyrum samfélagsmiðilsins TikTok í lok árs 2023 og varð að stórfelldu trendi á samfélagsmiðlum á síðasta ári.
Æðið náði þó ekki almennilega til Íslands fyrr en í byrjun þessa árs þegar hver áhrifavaldurinn á fætur öðrum tók að smakka súkkulaðið og auglýsa það. Í febrúar lýsti framkvæmdastjóri Bónus sölu á súkkulaðinu sem galinni.
Dúbaí-súkkulaði einnkennist af grænlitaðri fyllingu með sérstakri áferð sem er búin til úr pistasíukremi og svokölluðu kadayif-smjördeigi sem er notað í bakstur í Miðausturlöndum.
Giles Hacking hjá hnetusalanum CG Hacking sagði við Financial Times að verðið á pundi af pistasíum hafi farið úr 7,65 Bandaríkjadölum í 10,30 dali á innan við ári.
Skortur á pistasíuhnetum hafði þegar gert vart við sig eftir slæma uppskeru í Bandaríkjunum en landið er stærsti útflytjandi pistasía í heiminum. Þá seldu íranskir pistasíuframleiðendur fjörutíu prósentum meira af hnetum til Sameinuðu arabísku furstadæmana frá september 2024 til febrúar 2025 en þeir höfðu gert allt árið fyrir það.
Upphaflega var dúbaí-súkkulaðið einungis framleitt af fyrirtækinu Fix sem er staðsett í Dúbaí en fljótlega hófu aðrir súkkulaðiframleiðendur á borð við Läderach og Lindt að framleiða sínar eigin útgáfur. Fyrirtækin eru nú í vandræðum við að mæta eftirspurninni vegna pistasíuskorts.
Charles Jandreau hjá Prestat Group sem á fjölda breskra lúxussúkkulaðivörumerkja sagði eftirspurnina hafa komið iðnaðinum á óvart. Æðið hafi sprottið úr engu og skyndilega mætti sjá súkkulaðið á hverju horni.
Guardian fjallar um skortinn og segir verslanir hafa tekið upp á því að hámarka fjölda dúbaí-súkkulaðistykkja sem má selja í einu.