Æfingin, Dynamic Mongoose, hefst formlega á mánudag og stendur til 9. maí. Ísland er gestgjafi æfingarinnar að þessu sinni.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins kemur fram að æfingin er árleg og muni fara fram suður af landinu og á hafsvæði á milli Íslands og Noregs.
Landhelgisgæsla Íslands hefur annast skipulagningu æfingarinnar samkvæmt tilkynningu í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og flotastjórn Atlantshafsbandalagsins í Northwood í Bretlandi.
Herskipin sem komu til hafnar í Reykjavík í gær eru skipin HNLMS Tromp frá Hollandi, FGS Bayern og FGS Rhön frá Þýskalandi, ORP General Kazimierz Pulaski frá Póllandi auk þýsks kafbáts. Þrjú skipanna eru hluti af fastaflota NATO (SNMG1). Auk þess mun varðskipið Freyja taka þátt í æfingunni auk þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.