Dómur í málinu var kveðinn upp fyrir luktum dyrum í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 15. Málið var ekki háð í heyranda hljóði vegna ungs aldurs piltsins. Hann var sextán ára þegar hann framdi verknaðinn. Dómurinn hefur ekki verið birtur og því liggja forsendur hans ekki fyrir að svo stöddu.
Athygli er vakin á því að samkvæmt almennum hegningarlögum má ekki dæma mann í fangelsi lengur en í átta ár hafi hann framið brot sitt fyrir átján ára aldur.
Fimm saman í bíl
Pilturinn var ákærður í nóvember síðastliðnum fyrir manndráp og tvær tilraunir til manndráps, fyrir að hafa stungið tvö önnur ungmenni í sömu árás.
Í ákærunni sagði að fimm ungmenni hefðu verið í bifreið í miðbæ Reykjavíkur þann 24. ágúst laust fyrir miðnætti á Menningarnótt þegar pilturinn réðst á þau. Pilturinn hefði brotið rúðu bílsins og stungið ítrekað með hníf í pilt sem sat í bílnum og stungið hann bæði í öxl og brjóstkassa. Ungmennin hefðu þá flúið bifreiðina en ein stúlka orðið eftir í honum.
Pilturinn hefði þá ráðist á hana og stungið með hnífnum í öxl, handlegg og hendi. Að þessu loknu hefði hann ráðist á Bryndísi Klöru og stungið hana í gegnum hjartað. Hún lést nokkrum dögum síðar af sárum sínum á Landspítalanum.
„Engill alla sína tíð“
Ítarlega var fjallað um málið og Bryndísi Klöru í fréttaskýringaþættinum Kompás í febrúar. Þar kom meðal annars fram að margt hafi verið reynt til þess að hylma yfir glæpinn og koma sönnunargögnum undan.
Foreldrar Bryndísar sögðu hana hafa verið einstaka og að það vonuðu að saga hennar yrði til þess að bjarga mannslífum.
„Hún var einstök. Það er bara réttasta orðið. Alveg frá því að hún fæddist og hvernig hún kom í heiminn, sem byrjaði með erfiðleikum. Hún var bara engill alla sína tíð,“ sagði Birgir Karl Óskarsson, faðir hennar.
„Hún var yndisleg. Það er það fyrsta sem kemur upp í hugann. Hún hafði eitthvað ljós yfir sér, sem margir töluðu um. Hún var bara ofboðslega góð við alla og hjálpsöm. Var dugleg og skemmtileg og ofsalega góð stóra systir,“ sagði Iðunn Eiríksdóttir, móðir hennar.