Eins og frægt er hefur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ítrekað sagt að Bandaríkin þurfi að eignast Grænland af öryggisástæðum. Hann hefur ekki viljað útiloka beitingu hervalds og sagt að Grænland verði eign Bandaríkjanna með einum hætti eða öðrum.
Sjá einnig: Sendi Dönum tóninn
Starfsmönnum leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur meðal annars verið skipað að afla upplýsinga um frelsishreyfingu Grænlands og viðhorf heimamanna til mögulegrar námuvinnslu Bandaríkjamanna þar.
Samkvæmt heimildum Wall Street Journal eiga þeir einnig að bera kennsl á fólk á Grænlandi og í Danmörku sem styður markmið Bandaríkjanna varðandi Grænland. Þetta ku vera eitt fyrsta skrefið sem ríkisstjórn Trumps tekur í átt að mögulegri yfirtöku Grænlands.
Leyniþjónustur Bandaríkjanna munu samkvæmt skipun frá Tulsi Gabbard, sem er yfir málefnum leyniþjónustanna, leggja meiri áherslu á Grænland.
Í yfirlýsingu frá henni til WSJ segir að starfsmenn miðilsins ættu að skammast sín fyrir að taka þátt í herferð „djúpríkisins“ svokallaða gegn Trump. Meðlimir djúpríkisins leki upplýsingum í pólitískum tilgangi og brjóti þannig lög og grafi undan öryggi og lýðræði Bandaríkjanna.
Einn heimildarmaður WSJ, fyrrverandi háttsettur starfsmaður einnar leyniþjónustu Bandaríkjanna sem sérhæfði sig í málefnum Evrópu, segir auðlindir Bandaríkjanna þegar kemur að söfnun upplýsinga og njósna séu í eðli þeirra takmarkaðar. Þess vegna sé þeim yfirleitt beitt gegn meintum ógnum en ekki bandalagsríkjum Bandaríkjanna.
Grænland hafi ekki verið í sigti Bandaríkjamanna áður.