„Góður fundur í Osló í kvöld með leiðtogum bandalagsríkja. Ræddum meðal annars símleiðis við bæði forseta Bandaríkjanna og Úkraínu um mikilvægi þess að þrýsta á að Rússar fallist á að samþykkja og virða 30 daga vopnahlé. Það er nauðsynleg forsenda friðar,“ sagði Kristrún um fundinn á Facebook-síðu sinni í gær.
Þar kom einnig fram að í dag verði formleg dagskrá í Osló þar sem verður meðal umræðuefna staða öryggis- og varnarmála í Norður-Atlantshafi.
„Þessi JEF-ríki eru Norðurlönd, Eystrasaltsríkin og Bretland og Holland sem eru öll í NATO á þessum tímapunkti. Þessi hópur var stofnaður þegar hluti þessara ríkja var ekki í NATO en við erum að reyna að nýta bolkraft okkar til að sinna vörnum betur á þessu svæði sem er svo mikilvægt, meðal annars í Norður-Atlantshafi,“ segir Kristrún en rætt var við hana um fundinn í hádegisfréttum á Bylgjunni.

Áhersla á Úkraínu
Hún segir að áhersla hafi verið lögð á Úkraínu á fundinum og að Volodomír Selenskíj hafi verið viðstaddur fund ríkjanna í gegnum fjarfundarbúnað í morgun.
„Við áttum líka áhugavert samtal við Bandaríkjaforseta og Selenskíj í gærkvöldi í óformlegum kvöldverði,“ segir Kristrún og að það sé verið að auka þrýsting á vopnahlé í Úkraínu.
Hún telur að það hafi áhrif að hópurinn standi þétt saman. Skilaboðin séu skýr og eftir samtalið hafi „ákveðnar hreyfingar“ farið af stað.“
„…og líka auðvitað eftir samtal Bandaríkja forseta við Úkraínumenn. Þannig þetta auðvitað skiptir gríðarmiklu máli og að við höldum áfram stuðningi.“

Mikilvægt að gæta varna að norðan líka
Kristrún segir að á fundi ríkjanna sé þó einnig verið að ræða um mikilvægi sameiginlegra viðbragðssveita sem JEF sé á Norðurslóðum eða Norður-Atlantshafi. Það sé ekki aðeins gætt að vörnum vegna ógna í Eystrasalti heldur líka að norðan.
„Að við séum að nýta okkar krafta, og okkar getu meðal annars á Íslandi, til að styrkja þetta svæði.“