Dómurinn var kveðinn upp í gær af Alþjóðaviðskiptadómi Bandaríkjanna í Manhattan en var umsvifalaust áfrýjað til æðri dómstóls af ríkisstjórn Trump og því er framhaldið óljóst. Ríkisstjórnin er sögð efast um hvort dómstóllinn hafi umboð til að dæma í málinu, samkvæmt umfjöllun CNN.
Tvö mál voru til umfjöllunar samtímis hjá dómstólnum, eitt frá ríkjum sem eiga í viðskiptasambandi við Bandaríkin og annað frá bandalagi nokkurra ríkisstjórna innan Bandaríkjanna.
Hafa tíu daga til að koma á nýju fyrirkomulagi
Dómstóllinn komst að því að allar tollahækkanir sem Trump hefur fyrirskipað í skjóli laga um neyðarvald væru andstæðar rétthærri lögum. Lögunum um neyðarvald megi beita í efnahagslegu neyðarástandi en tollahækkanir væru ekki meðal aðgerða sem beita megi í skjóli laganna.
Tollahækkanirnar sem hann tilkynnti þann 2. apríl og boðaði í leið „frelsun Bandaríkjanna“ heyri meðal annars þar undir.
Sjá einnig: Ísland ekki á spjaldi Trumps en fær samt tíu prósenta toll
Þá skipaði dómstóllinn stjórninni að gefa út nýtt tollafyrirkomulag innan tíu daga. En sem fyrr segir var dóminum áfrýjað og því óljóst hvort ríkisstjórnin komi til með að framfylgja því.
Tollahækkanir á innflutta bíla, ál og stál voru ekki til umfjöllunar í málinu og því standa þær hækkanir sem Trump hefur fyrirskipað á þann innflutning.
Í frétt BBC þar sem fjallað er um framhaldið segir að ef æðri dómstólar staðfesta dóm Alþjóðaviðskiptadómsins fái viðskiptaaðilar endurgreiðslu á þeim tollum sem þeir hafa þurft að greiða á innflutning og voru dæmdir andstæðir lögum.