Hörðum loftárásum Ísraela á Írana var haldið áfram í nótt, sjötta daginn í röð. Ísraelar segja árásirnar nauðsynlegar til að stöðva þróun Írana á kjarnavopnum sem þeir séu komnir langt á veg með.
Nokkur hræðsla hefur gripið um sig meðal almennings í Íran og hafa sumir reynt að flýja land. Þá óttast landsmenn matvæla- og eldsneytisskort og voru fáir á ferli í Tehran höfuðborg landsins í dag.
Árásum Ísraela er meðal annars beint að háttsettum írönskum herforingjum og vísindamönnum og segja írönsk stjórnvöld nokkur hundruð manns hafa látist. Þau hafa jafnframt svarað með því að skjóta eldflaugum og drónum á Ísraela.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna skoðar nú hvort Bandaríkjamenn eigi að taka þátt í árásum Ísraela og hafði hann þetta að segja um málið í dag.
„Ég geri það kannski, kannski ekki. Enginn veit hvað ég mun gera en ég get sagt ykkur að Íranar eru í miklum vanda og þeir vilja semja.“
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti klerkur Írana, varaði í dag Bandaríkjamenn eindregið við því að blanda sér í deiluna og sagði þvinganir aldrei leiða til uppgjafar.
Sjá einnig: Fjórtán tonna sprengjan sem Ísraela vantar
Þorgerður Katrín utanríkisráðherra mætti á fund utanríkismálanefnd Alþingis í dag þar sem farið var yfir stöðuna.
„Þetta er náttúrulega mjög eldfim staða. Það er stigmögnum átaka og það var nú nóg fyrir samt og við erum að sjá það að á meðan eru svæði eins og Gaza-svæðið sem að gleymist þá í þessu sem er hræðilegt út af þeirri eymd sem að þar er en líka þá finnum við að það verður minni fókus á Úkraínu og það er hrikalegt líka fyrir, ekki bara frelsi og öryggi Úkraínu heldur líka fyrir frelsi og öryggi Evrópu.“
Íslendingar á svæðin hafi óskað eftir aðstoð stjórnvalda.
„Það eru sjö Íslendingar í Ísrael sem hafa leitað til ráðuneytisins. Það eru níu Íslendingar í Íran ásamt dvalarleyfishöfum og við erum einfaldlega að vinna í þessum málum. Við verðum að hafa í huga að lofthelgin bæði yfir Ísrael og Íran hún er lokuð og þá verður að finna aðrar leiðir og við erum einfaldlega vinna þetta í samvinnu við bæði Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin og fleiri ríki.“
Þannig að þið eru að reyna að koma þessu fólki af þessum svæðum?
„Já við erum að reyna að gera það sem við getum til þess að koma til móts við þær óskir og þarfir sem hafa verið settar fram gagnvart okkur.“