Breiðablik tryggði sér 1-1 jafntefli á móti Fram í gær með marki úr vítaspyrnu á lokamínútum leiksins. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði úr vítinu en fékk svo rauða spjaldið fyrir slagsmál strax eftir markið.
Byrjað var á því að ræða aðdraganda vítaspyrnudómsins þar sem að erfitt var að sjá hvort að Israel Garcia Moreno, leikmaður Fram, hafi tekið Ágúst Orra Þorsteinsson, leikmann Breiðabliks niður í vítateignum.
„Við getum alls ekki sagt af eða á en á þessum myndum virkar eins og það sé engin snerting. Ég held að þetta sé ekki víti,“ sagði Baldur Sigurðsson um atvikið.
Höskuldu Gunnlaugsson tók vítaspyrnuna fyrir Breiðablik og skoraði af miklu öryggi, jafnaði þar með metin en í kjölfarið fór allt í hund og kött.
Höskuldur ætlaði að ná í boltann í netið eftir vítið, keyrði fyrst í bakið á Kennie Knak Chopart, fyrirliða Fram, og snéri síðan niður Viktor Freyr Sigurðsson, markvörð Fram, og lagðist ofan á hann.
Höskuldur lenti síðan saman við Kyle McLagan sem kom markverði sínum til varnar. Arnar Þór Stefánsson, dómari leiksins sýndi bæði Höskuldi og Kyle rauða spjaldið. Kyle var mjög ósáttur með rauða spjaldið en sérfræðingar Stúkunnar telja það réttmætt.
„Já, allavegana hundrað prósent Höskuldur,“ sagði Baldur Sigurðsson. „Höskuldur bara tryllist bara strax frá byrjun. Tekur einhverja glímu á Viktor, það er reyndar óþolandi þegar að markmenn gera þetta ég skil hann en hann getur náttúrulega ekki gert þetta. Svo fer Kyle í þetta og þeir enda þarna í einhverju klastri. Ég tel Magnús Inga hafa sloppið vel. Hann tók Valgeir og fleygði honum niður. Mér fannst bara svo skrýtið hvað Höskuldur varð heitur strax. Nú er hann kominn í bann, kannski tveggja leikja bann.“
Hulda Margrét, ljósmyndari Vísis, var á Kópavogsvelli í gær og var vel staðsett þegar að slagsmálin brutust út, myndir hennar má sjá hér fyrir neðan.






