Erlent

Ó­eirðir í Tyrk­landi vegna umdeildrar skopmyndar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Umrædd mynd sýndi einhvern Múhameð verða fyrir árás Ísrael. Menn deila um hvort umræddur Múhameð var spámaður eða almennur borgari.
Umrædd mynd sýndi einhvern Múhameð verða fyrir árás Ísrael. Menn deila um hvort umræddur Múhameð var spámaður eða almennur borgari. Getty/AFP/Ozan Köse

Óeirðir brutust út í Istanbúl í gær eftir að yfirsaksóknari borgarinnar fyrirskipaði handtökur ritstjóra tímaritsins LeMan á þeim forsendum að blaðið hefði birt skopmynd af Múhameð.

Tuncay Akgun, aðalritstjóri blaðsins, segir hins vegar um mistúlkun að ræða; umræddur Múhameð á myndinni sé ekki spámaðurinn Múhameð heldur ótilgreindur almennur borgari. Hann bendir á að yfir 200 milljónir manna beri nafnið Múhameð.

„Þetta hefur ekkert að gera með spámanninn Múhameð. Við myndum aldrei taka slíka áhættu,“ segir hann.

Þegar fregnir bárust af handtökutilskipununum réðust tugir manna inn á bar sem er sagður vinsæll meðal starfsmanna LeMan. Í kjölfarið kom til átaka milli mannfjöldans og lögreglu en um 250 til 300 manns eru sagðir hafa tekið þátt þegar mest var.

LeMan er þekkt fyrir pólitíska satíru og vakti meðal annars reiði íhaldsmanna þegar ritstjórnin lýsti yfir stuðningi við kollega sína hjá franska tímaritinu Charlie Hebdo eftir árásir á ritstjóranrskrifstofur þess í París árið 2015.

Tólf létust í árásinni en tilefni hennar voru skopmyndir blaðsins af Múhameð spámanni.

Ali Yerlikaya, innanríkisráðherra Tyrklands, sagði á X í gær að lögregla hefði handtekið einstaklinginn sem teiknaði skopmyndina fyrir LeMan og grafískan hönnuð blaðsins. 

Umræddir einstaklingar yrðu dregnir fyrir dómstóla og refsað fyrir meintan glæp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×