Erlent

Hótar Pútín með tollum ef friður næst ekki á fimm­tíu dögum

Agnar Már Másson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi í Hvíta húsinu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundi í Hvíta húsinu. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótar Rússum með „mjög þungum tollum“ ef ekki næst að semja um frið í Úkraínu innan 50 daga. Hyggst hann aðstoða Evrópuríki við að senda Úkraínumönnum fleiri vopn, þar á meðal Patriot-loftvarnarkerfin sem eru efst á óskalista Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta.

Reyndar myndu tollar á Rússland hafa lítil áhrif enda hefur Rússland selt mjög lítið til Bandaríkjanna frá því að stríðið hófst — viðskiptin hafa verið upp á minna en 5 milljarða dollara (610 ma. kr.) árið 2023 og enn minna síðan.

Trump lagði í dag fram áætlun um hvernig hann hyggst þrýsta á Rússa um að binda enda á innrásina í Úkraínu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við Mark Rutte, framkvæmdastjóra Nató, í Hvíta húsinu í dag.AP

Samkvæmt umfjöllun New York Times tilkynnti Trump þetta er hann hitti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATO), Mark Rutte, í Hvíta húsinu. Rutte hefur verið að samhæfa aðgerðir Evrópuríkja við að senda Úkraínuher fleiri vopn til að verja sig gegn innrásarstríði Rússlands.

Samkvæmt fyrirkomulaginu myndi NATO kaupa bandarísk vopn og senda þau áfram til Kænugarðs. 

„Evrópusambandið mun greiða okkur 100 prósent fyrir þá,“ sagði Trump í gær, sem er reyndar samt ekki alveg rétt þar sem aðildarríki NATO munu greiða, ekki Evrópusambandið eða NATO sjálft. Af 27 ESB-ríkjum eru 23 einnig aðilar að NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×