Lífið

Ó­væntur Johnny Depp heiðraði Ozzy með Alice Cooper

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Cooper syngur meðan Depp riffar á rafmagnsgítarinn.
Cooper syngur meðan Depp riffar á rafmagnsgítarinn. Getty

Johnny Depp birtist óvænt uppi á sviði á tónleikum rokkarans Alice Cooper í Lundúnum og saman heiðruðu þeir minningu Ozzy Osbourne með flutningi á „Paranoid“ eftir Black Sabbath.

Alice Cooper hefur verið á tónleikaferðalagi upp á síðkastið með hljómsveit sinni og á föstudag spilaði hljómsveitin í O2-höllinni í Lundúnum.

Undir lok tónleika barst þeim óvæntur liðsstyrkur þegar Johnny Depp, leikari og rokkari, mætti á sviðið með höfuðklút, sólgleraugu og Gibson Flying V-rafmagnsgítar.

Cooper kynnti Depp inn í gríni sem „einhvern gaur sem við föndum úti í húsasundi sem sagði eitthvað um vampírur“ við mikil fagnaðarlæti áhorfenda. Cooper vísaði þar í ofur-grúppuna Hollywood Vampires, sem hann, Depp og Joe Perry, stofnuðu saman árið 2012 og hefur gefið út tvær plötur.

„Þessi er fyrir Ozzy!“ hrópaði Cooper, sem var klæddur í Ozzy Osbourne-stuttermabol, áður en þeir félagar tóku slagarann „Paranoid“ af samnefndri plötu Black Sabbath. Eftir flutninginn staldraði Depp við og tók lokalagið „School's Out“ með Cooper og félögum.

Ozzy Osbourne, einn áhrifamesti þungarokkari allra tíma, lést þriðjudaginn 22. júlí eftir þriggja ára baráttu við Parkinsonssjúkdóm og ýmsa aðra heilsukvilla.


Tengdar fréttir

Ozzy Osbourne allur

Breska rokkstjarnan Ozzy Osbourne er látinn 76 ára að aldri. Fjölskylda hans greinir frá þessu. Áhrif hans á rokksöguna voru mikil, og hlaut hann viðurnefnið myrkraprinsinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.