Erlent

Louvre-safni lokað vegna ráns

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þessir píramídar prýða safnið að utan og er jafnvel hægt að gægjast inn.
Þessir píramídar prýða safnið að utan og er jafnvel hægt að gægjast inn. EPA

Louvre-safninu í Parísarborg hefur verið lokað vegna ráns í húsakynnum þess. Níu hlutir úr skartgripasafni Napóleons voru teknir. 

Þetta staðfestir Rachida Dati, menningarráðherra Frakklands, í færslu á samfélagsmiðlinum X. 

„Þjófnaður átti sér stað í morgun þegar Louvre safnið var opnað. Enginn er slasaður. Ég er á vettvangi með starfsmönnum safnsins og lögreglunni. Rannsókn stendur yfir,“ skrifar Dati.

Le Parisien greinir frá að nokkrir grímuklæddir menn hafi brotist inn í safnið við opnun þess klukkan níu á staðartíma og haft með sér skartgripi Napóleons. 

Þjófarnir fóru í gegnum framkvæmdasvæði við safnið og brutu síðan glugga til að komast inn í sal Apolló þar sem skartgripasafnið er geymt. Tóku þeir alls níu hluti úr safninu, þar á meðal hálsmen, brjóstnál og kórónu. 140 karata demanturinn la Régent, sá stærsti í skartgripasafninu, var ekki tekinn.

Þjófarnir komust út úr safninu og flúðu vettvang.

Sjónarvottur segir gesti safnsins hafa verið afar óttaslegnir og reynt að komast út um glerhurð safnsins en hún var lokuð. Að sama skapi komust fulltrúar lögreglu og hersins ekki inn um hurðina.

Safninu hefur því verið lokað en stendur á X að safnið sé lokað vegna einstakra ástæðna.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×