Enski boltinn

Klopp út­skýrði af hverju hann hafnaði Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp hafnaði tækifærinu til að stýra Manchester United.
Jürgen Klopp hafnaði tækifærinu til að stýra Manchester United. Getty/John Powell

„Þetta var ekki verkefni að mínu skapi,“ segir Jürgen Klopp í nýju viðtali um ástæðu þess að hann hafnaði því að taka við Manchester United af Sir Alex Ferguson árið 2013.

Klopp ræddi um þetta í The Diary of a CEO sem sjá má hér að neðan. Þar greindi hann einnig frá því að ekki væri útilokað að hann yrði einhvern tímann aftur knattspyrnustjóri Liverpool.

Klopp sagði erfitt að ræða um það opinberlega af hverju hann hafnaði United á sínum tíma og hélt áfram að stýra Dortmund, áður en hann tók svo við Liverpool tveimur árum síðar eða 2015.

„Það voru hlutir sem þetta fólk sagði sem að mér líkaði ekki við. „Við fáum alla leikmennina sem þú vilt… við fáum hann, og hann, og hann.“ Og ég bara sat þarna og hugsaði: Já, þetta er ekki verkefni að mínu skapi. Þetta var ekki rétti tímapunkturinn en ofan á það þá var þetta ekki verkefni að mínu skapi,“ sagði Klopp í viðtalinu, sem sjá má hér að neðan.

Klopp sagði forráðamenn United hafa virst mikið uppteknari af því að sækja til sín stjörnuleikmenn en að búa til langtímafótboltaplan.

„Ég vildi ekki vera að sækja aftur leikmenn, eins og Pogba. Pogba er stórkostlegur leikmaður, Guð minn góður, en svona hlutir ganga yfirleitt ekki upp. Eða með Cristiano Ronaldo. Við vitum öll að hann er ásamt Messi bestur í heiminum. En það hjálpar aldrei að fá menn svona til baka. Á þessum tíma, 2013, snerist þetta auðvitað ekki um Cristiano, kannski Pogba, ég man það ekki, en hugmyndin var bara að við ættum að fá alla bestu leikmennina og keyra á þetta,“ sagði Klopp. Spjallið hafi þannig ekkert snúist um fótbolta.

„Ég sat þarna og hugsaði; þetta er ekki fyrir mig.“

Klopp segist svo hafa fengið allt aðra tilfinningu þegar hann ræddi við Mike Gordon, formann Fenway Sports Group, um að taka við Liverpool. Það gerði hann árið 2015 og vann með liðinu langþráðan Englandsmeistaratitil 2020, Evrópumeistaratitil og heimsmeistaratitil 2019, bikarmeistaratitil 2022 og tvo deildabikarmeistaratitla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×