Viðskipti innlent

Sér ljós við enda ganganna: „Kannski þurfti svona stóra truflun til“

Árni Sæberg skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. Vísir/Vilhelm

Bankastjóri Landsbankans segir ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf þegar hafa lækkað frá því að bankinn tilkynnti um breytingar á lánaframboði sínu. Nú sé ljós við enda ganganna og spurning hvort slíka truflun á lánamarkaði hafi þurft til að verðbólga hjaðni og vextir verði lækkaðir. Hún segir markmið bankans þó aðeins hafa verið tryggja framboð íbúðalána.

Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Töldu mikilvægt að sýna fljótt á spilin

Tilefnið var tilkynning bankans á föstudag um verulega breytingar á lánaframboði bankans í kjölfar dóms Hæstaréttar í Vaxtamálinu svokallaða. Breytingarnar fela meðal annars í sér að verðtryggð lán eru aðeins veitt fyrstu kaupendum og það aðeins til tuttugu ára. Þá býður bankinn nú upp á fasta vexti á óverðtryggðum lánum til eins árs.

Lilja Björk segir að með þessu hafi stjórnendur bankans brugðist við dómi Hæstaréttar, sem hafi valdið mikilli óvissu. Þeir hafi tekið nokkra daga í að fara gaumgæfilega yfir dóminn. Þeirra fyrsta hugsun hafi verið hvernig hægt væri að bjóða upp á íbúðalán í kjölfar dómsins.

„Við þurftum að stoppa veitingu íbúðalána í stuttan tíma en töldum mjög mikilvægt að koma fljótt með útspil.“

Vandi á höndum varðandi verðtrygginguna

Hvað varðar óverðtryggð íbúðalán, sem umræðan snúist ekki endilega um einmitt núna, sé bankinn að fylgja fyrirmælum Hæstaréttar, um að miða breytingar óverðtryggðra vaxta aðeins við stýrivexti Seðlabanka Íslands. Þannig sé fast álag á ofan á stýrivexti til fjörutíu ára. Þá bjóði bankinn nú upp á fasta vexti til eins árs, til þess að fólk geti notið betri kjara án þess að festa vexti til þriggja eða fimm ára.

Lægsta greiðslubyrðin sé eftir sem áður á verðtryggðum lánum en þar hafi bankanum verið mikill vandi á höndum vegna dóms Hæstaréttar.

„Vegna þess að það er ekki til þetta viðmið sem Hæstiréttur talar um fyrir óverðtryggð lán. Það er ekki til almennt verðtryggt vaxtaviðmið. Við höfum birt okkar verðtryggðu vexti í töflum og á vefsíðu bankans og ákvarðað þá sjálf, út frá mörgum þáttum eins og fjármögnun, aðallega, það er að segja hvað það kostar bankann að fjármagna útlán.“

Eftir að hafa legið yfir dómnum hafi niðurstaðan verið sú að það besta sem bankinn gæti gert væri að bjóða upp á verðtryggt lán með föstum vöxtum í tuttugu ár. Þau lán standa aðeins fyrstu kaupendum til boða.

Breytir engu um afkomu bankans

Lilja Björk segir að breytingarnar muni ekki koma til með að hafa nein áhrif á afkomu bankans vegna útlánastarfsemi. Bankinn muni viðhalda samkeppnishæfni sinni á íbúðalánamarkaði, sem hann hafi nú gert í mörg ár.

Þá segist hún ekki á því að breytingar muni fæla fólk frá Landsbankanum eða að bankinn eigi að hætta að kalla sig banka landsmanna og taka upp viðurnefnið banki hátekjufólks, líkt og fasteignasalinn Hannes Steindórsson lagði til í gær.

Það gerði hann með vísan til þess að vilji einstaklingur kaupa 65 milljóna króna eign og taka lán upp á 52 milljónir króna, þurfi hann að hafa 1.800 þúsund krónur í mánaðarlaun.

„Við erum fyrst út með viðbrögð við þessum dómi og þá er það það sem við tökum á okkur, umræðan í kringum það. Vextir eru háir núna og það leiðir auðvitað til þess að það þarf ákveðnar ráðstöfunartekjur til að geta staðið undir greiðslubyrðinni.“

Þá bendir hún á að greiðslubyrðarmat Seðlabankans miði enn við 25 ára verðtryggð lán en ekki tuttugu ára og því hafi breyting ekki áhrif á það.

Mikil óvissa uppi enn

Lilja Björk segir það rétt að enn gæti mikillar óvissu á lánamarkaði en enn er von á þremur dómum Hæstaréttar í vaxtamálum viðskiptabankanna þriggja.

Finnst þér rétt að ríkisbankinn taki þetta skref, leiði þessa þróun?

„Við erum stærsti bankinn á íbúðalánamarkaði. Við þurfum að taka ábyrgð á því að bjóða íbúðalán og leiðarljósið okkar er ekkert annað en að reyna að sinna viðskiptavinum okkar vel, reyna að finna leið. En það er erfitt að lækka vexti þegar vextir eru háir í umhverfinu okkar. En ég sé það strax að á föstudaginn og í framhaldinu hefur ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf lækkað. Sem þýðir það að það er kannski ljós við enda ganganna, að vextir gætu farið að lækka. Kannski þurfti einhverja svona truflun til en það var ekki tilgangur okkar. Okkar tilgangur var að veita viðskiptavinum þjónustu.“


Tengdar fréttir

„Ekki bara smá eyða, þetta er risastórt gat“

Það er ekki raunhæft að lífeyrissjóðirnir fylli einir í það stóra gat sem myndast á fasteignalánamarkaði í kjölfar viðbragða bankanna við vaxtamálinu svokallaða. Þetta segir dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Formaður Neytendasamtakanna bendir á að margir lífeyrissjóðir séu enn að veita verðtryggð lán og það kæmi honum mjög á óvart ef sjóðirnir skorist undan því að veita félagsmönnum sínum hagstæð lán.

„Niðursveifla í byggingariðnaði er hafin“

Aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir að ef löggjafinn og Seðlabankinn bregðast ekki við því ástandi sem nú er uppi á lánamarkaði af festu, sé viðbúið að lendingin verði hörð.

Niðurstaða í máli Arion banka um miðjan desember

Búast má við því að Hæstiréttur kveði upp dóm í máli tveggja lántaka á hendur Arion banka, vegna skilmála í samningi um verðtryggt lán á breytilegum vöxtum, í desember. Bankinn hefur sett veitingu verðtryggðra lána á ís en boðar frekari viðbrögð við dómi Hæstaréttar í Vaxtamálinu svokallaða, áður en dómur gengur í desember.

„Það verða fjöldagjaldþrot“

Útlitið er dökkt á húsnæðismarkaði eftir vaxtadóminn svokallaða. Það segja þeir Páll Pálsson, fasteignasali, og Már Wolfgang Mixa, dósent við Háskóla Íslands, sem voru í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar ræddu þeir vaxtadóminn og áhrif hans á fasteignamarkaðinn, húsnæðisverð og lánskjör almennings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×