Bíó og sjónvarp

Æstur að­dáandi óð í Grande

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ariana Grande og Cynthia Erivo heilsuðu aðdáendum í Singapúr. Flestir voru almennilegir en einn missti sig alveg.
Ariana Grande og Cynthia Erivo heilsuðu aðdáendum í Singapúr. Flestir voru almennilegir en einn missti sig alveg. Getty

Ástralskur aðdáandi óð upp að söng- og leikkonunni Ariönu Grande og tók utan um hana í Singapore í gær. Cynthia Erivo, mótleikkona Grande, kom henni til varnar og ýtti manninum frá áður en hann var fjarlægður af vettvangi. Maðurinn gerir markvisst út á það að ryðjast upp á svið til tónlistarmanna eða inn á íþróttaviðburði.

Sérstök Asíu-Kyrrahafs-frumsýning var haldin fyrir söngleikjamyndinina Wicked: For Good, framhald Wicked (2024), í skemmtigarði Universal í Singapore í gær.

Þegar aðalleikarar myndarinnar gengu eftir rauðum dreglinum, heilsuðu aðdáendum og sátu fyrir á ljósmyndum, stökk maður yfir grindverkið, hljóp í átt að Ariönu Grande, tók utan um hana og hoppaði upp og niður við hlið hennar. Grande sjálf fraus algjörlega en samstarfskona hennar, Cynthia Erivo, var fljót að bregðast við og ýtti honum í burtu.

Maðurinn sem um ræðir er Ástralinn Johnson Wen sem kallar sig Pyjaman Man og hefur gert það að vana sínum að trufla hina ýmsu viðburði. Hann deildi sjálfur myndbandi af atvikinu í gær á samfélagsmiðlum.

„Kæra Ariana Grande, takk fyrir að leyfa mér að hoppa á gula dregilinn með þér,“ skrifaði hann við myndbandið.

Í öðrum myndböndum af vettvangi sést þegar öryggisgæsla staðarins handsamaði Wen og henti honum af viðburðinum. Hann sagðist sjálfur vera „frjáls“ úr haldi en ekki liggur fyrir hvort hann verði lögsóttur fyrir gjörninginn. Hvorki Grande né Erivo hafa tjáð sig um málið.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Wen gerir eitthvað svona lagað, hann hefur verið uppvís um sambærileg atvik gegnum tíðina og truflaði hann nýverið tónleika hjá bæði Katy Perry og Weeknd í Ástralíu. Þá hljóp hann inn á hlaupabrautina í úrslitum hundrað metra hlaups á Ólympíuleikunum í París í fyrra og úrlist heimsmeistarakeppninnar í krikketi árið 2023.

Wicked: For Good verður frumsýnd hérlendis 20. nóvember næstkomandi. Hún segir seinni hluta sögunnar um Glindu og Elphöbu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.